Greint hefur verið frá því að Kolbeinn muni mæta hinum pólska Piotr Cwik í hnefaleikahringnum í Vínarborg í Austurríki en þetta verður þriðji bardagi Kolbeins á árinu.
Kolbeinn er ósigraður á sínum atvinnumannaferli með sextán sigra í jafnmörgum bardögum og stefnir á að komast inn á lista yfir topp fimmtíu þungavigtarkappa í heiminum.
Piotr hefur hins vegar unnið sjö af átta bardögum sínum sem atvinnumaður í hnefaleikum og tapað einum. Hann er sem stendur á sjö bardaga sigurgöngu.
Kolbeinn er sem stendur í 86.sæti á heimslista hnefaleikakappa í þungavigtarflokki og bar síðast sigur úr bítum gegn Finnanum Mika Mielonen í Helsinki í september fyrr á þessu ári þar sem að Kolbeinn varði Baltic Union beltið sitt.
Íslendingurinn hefur varið undanfarinni viku í Þýskalandi við æfingar með úkraínska EBU meistaranum og þungavigtarkappanum Oleksandr Zakhozhyi en sá er, líkt og Kolbeinn, ósigraður á sínum ferli og er sem stendur í 31.sæti á heimslistanum. Sá mun mæta Arnold Gjergjaj og reyna að verja EBU beltið sitt þann 23.nóvember næstkomandi.