„Samninganefnd Sambandsins fer með samningsumboðið fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga í yfirstandandi kjaraviðræðum við Kennarasamband Íslands og aðra viðsemjendur er tengjast þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að. Umboðið er alveg skýrt og afdráttarlaust og lýsir stjórn Sambandsins yfir fullu trausti til samninganefndarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá kemur einnig fram að stjórn sambandsins harmi þá stöðu sem upp er komin og áhrif verkfallanna á börn og foreldra þeirra um land allt.
„Stjórnin ítrekar samningsvilja Sambandsins og vonast eftir að aðilar nái saman um lausn kjaradeilunnar.“
Ekki er búið að boða til nýs fundar í kjaradeilu Kennarasambandsins við ríki og sveitarfélög. Formaður Kennarasambandsins segir síðasta fund hafa gengið vel en það virðist enn vera langt í samninga. Baráttufundur kennara fer nú fram í Háskólabíó.