„Hönnun og notendaupplifun spilaði lykilhlutverk og því er það svo sannarlega mikið fagnaðarefni. Það var einstök upplifun að taka á móti þessum virtu alþjóðlegu hönnunarverðlaunum hér í Berlín,“ bætir Ásta við.

Í fréttatilkynningu segir:
„Appið Regn og stafræna hönnunarstofan Kolibri hlutu um helgina hin alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaun í flokknum Merkja- og samskiptahönnun eða Brands & Communication Design. Red Dot verðlaunin eru ein þau virtustu á sviði hönnunar en alls bárust dómnefndinni umsóknir frá 57 löndum. Fulltrúar Regn og Kolibri voru viðstödd þegar verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Konzerthaus í Berlín.
Regn er forrit sem býður notendum að kaupa og selja notuð föt úr sófanum heima og fór í loftið í ágúst á síðasta ári. Nafnið Regn er tilvísun í náttúruna og hringrásina; vatn gufar upp, verður að skýi sem svo rignir niður. Forritið byggir á sömu hringrásarhugmynd þar sem elskaðar flíkur mynda hringrásina.“

