Skoðun

Ís­lenskan og menningar­arfurinn

Sólveig Dagmar Þórisdóttir skrifar

Íslenskan og menningararfurinn er ein dýrmætasta auðlind okkar og var aðalforsendan fyrir sjálfstæðisbaráttunni hér áður fyrr. Ef ekki er sterk þjóðmenning þá er ekki þjóð.

Við í Lýðræðisflokknum leggjum áherslu á að viðhalda íslenskunni og varðveita menningararfinn. Leiðir eru til. Til dæmis styðja hugvísindadeildir í háskólum sem nú þegar sinna frábæru starfi og miðla áfram faglegri færni í hvernig megi halda utan um menningararfinn.

Leggjum áherslu á að aðflutt fólk frá öðrum tungumálasvæðum læri íslensku, sérstaklega börnin. Kennum þeim íslenska menningu, hefðir og siði. Þegar fólk flyst til annarra landa þarf að aðlagast því menningarsvæði sem það flytur til og læra tungumálið. Fólk fær ekki einu sinni vinnu nema hafa grunnþekkingu í tungumálinu. Af hverju á það ekki við um Ísland? Eingöngu í löndum sem hafa algjörlega misst menningarlega sérstöðu sína, eins og t.d. Kanaríeyjar þarf fólk ekki að aðlagast og læra tungumálið á staðnum.

Einnig þarf að efla færni íslenskra barna í íslensku svo þau leiti ekki í ensku til að tjá sig. Besta leiðin til að auka orðaforða er að lesa sem mest á íslensku. Því er mikilvægt að halda að börnunum íslenskum bókum til að ná lesskilningi og auknum orðaforða. Byrja að lesa fyrir börnin strax í frumbernsku. Þannig vex þekking samfélagsins alls.

Börnin okkar eiga eftir að taka við landinu af okkur sem eldri erum. Með auknum lesskilningi og þekkingu á menningarverðmætunum viðhöldum við þjóðmenningu okkar og sérstöðu.

Undirrituð er leiðsögumaður og því legg ég áherslu á að alltaf þurfi löggilda og faglega leiðsögn í hópferðum erlendra ferðamanna. Í mörgum löndum er það sett í lög að alltaf þurfi að vera innlendur leiðsögumaður með hópum. Þannig fá ferðamenn breiðari þekkingu um Ísland sem þeir síðan deila víða um heim.

Lýðræðisflokkurinn er stofnaður fyrir þig og þjóðina.

Ávinningurinn er því mikill að kjósa Lýðræðisflokkinn.

Höfundur skipar 4. sæti X-L Reykjavík norður, hagnýtur menningarmiðlari, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Create Iceland Travel ehf.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×