Stjórnmálasamtökin þrjú eru Ábyrg framtíð, Sósíalistaflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn.
Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, sem býður fram í Reykjavíkurkjördæmi norður, staðfestir að landskjörstjórn hafi gert athugasemd við meðmælalista flokksins. Þær hafi meðal annars snúið að skráningu lögheimila og fleira í þeim dúrnum. Hann hefur engar áhyggjur af því að flokkurinn nái ekki að leysa úr þeirri flækju og sé raunar langt kominn með það nú þegar.
Ætti að vera klappað og klárt um hádegið
Sara Stef. Hildardóttir, skrifstofustjóri Sósíalista, segir að nokkur framboð hafi fengið á sig ágalla en það hafi ekki verið á ábyrgð framboðanna. Ágallar hafi verið tilkomnir vegna tæknilegs atriðis við söfnun rafrænna undirskrifta.
„Landskjörstjórn óskaði eftir því við þessi framboð, sem höfðu notað ákveðna þjónustu, að láta keyra sannreyningu á undirskriftunum. Þeim skýrslum var öllum skilað í gær. Þau framboð sem fá á sig svona ágalla hafa til klukkan 9 til að afgreiða þessar undirritanir og við erum að ganga frá því. Það verður búið um hádegið.“
Lýðræðisflokkurinn tjáir sig ekki
Heimildir Vísir herma að þriðja framboðið sé Lýðræðisflokkurinn. Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, kosningastjóri Lýðræðisflokksins, brást ókvæða við þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans. Hann vildi ekkert tjá sig um málið.
„Við erum bundin trúnaði við landskjörstjórn og eftir því skal fara.“