Heimild til þess að lögreglumenn bæru og beittu rafbyssum tók gildi í janúar eftir að Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, breytti reglum um valdbeitingu lögreglumanna og beitingu á valdbeitingartækjum í desember 2022. Rafbyssurnar voru hins vegar fyrst teknar í notkun í byrjun september.
Fram að þessu hafa lögreglumenn dregið rafbyssur sínar úr slíðri eða ræst þær fimmtán sinnum í níu málum samkvæmt skriflegu svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Vísis. Hingað til hafi lögreglumenn ekki stuðað einstaklinga með slíkum byssum.
Karlmaður sem var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps þegar hann stakk gangandi vegfaranda í vesturbæ Reykjavíkur lýsti því fyrir dómi í september að lögreglumenn hefðu skotið hann með rafbyssu þegar hann var handtekinn í janúar.
Í svari ríkislögreglustjóraembættisins er ítrekað að rafbyssur hafi ekki verið teknar í notkun fyrr en í september. Hins vegar megi vera að upplifun af því að verða fyrir svonefndu höggskoti sem sérsveit lögreglunnar hefur verið heimilt að nota frá árinu 2016 sé svipuð því og að verða fyrir rafbyssu.
Hver byssa kostar meira en milljón
Um fimm hundruð og fimmtíu lögreglumenn um allt landið hafa lokið þjálfun í meðferð og beitingu rafbyssa. Hundrað og tuttugu rafbyssur voru keyptar í ár en tíu til viðbótar verða keyptar næstu fjögur árin.
Lögreglan greiðir 183 milljónir króna fyrir byssurnar samkvæmt samningi sem var gerður við bandaríska framleiðandann Axon um kaupin, meira en 1,1 milljón króna fyrir hverja byssu.
Engin ófyrirséð vandamál hafa enn komið upp varðandi notkun rafbyssanna samvkæmt svari ríkislögreglustjóra.
„Þar sem stutt er síðan rafvarnarvopnin voru fyrst tekin í notkun hér er ekki enn komin reynsla á þetta. Enn sem komið er hefur ekkert komið upp en líkt og með önnur valdbeitingartæki lögreglu er fyrirséð að rafvarnarvopn virka ekki í öllum tilfellum. Því er mikilvægt að lögreglumenn hafi fjölbreytt úrval valdbeitingartækja til þess að grípa til við úrlausn mismunandi verkefna,“ segir í svarinu en lögreglan skilgreinir rafbyssurnar sem rafvarnarvopn.
Ríkislögregluembættið hefur fullyrt að mikið eftirlit verði með notkun rafbyssanna. Eftirlitið felist meðal annars í sjálfvirkum skráningum og myndupptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna. Þá hyggst embættið birta tölfræði um notkun vopnanna reglulega.