Zak og Elliott höfðu aðeins verið nokkrar klukkustundir á Íslandi 19. apríl síðastliðinn þegar slysið varð, á þjóðveginum rétt vestan við Hellu. Zak lýsti atburðarásinni í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 níu dögum síðar, þegar Elliott lá enn þá þungt haldinn á spítalanum.
Elliott slasaðist lífshættulega; hann fékk miklar innvortis blæðingar og gekkst undir nokkrar aðgerðir. Hann lá í þrjár vikur inni á Landspítalanum og tvær vikur til viðbótar á sjúkrahúsi heima í Norwich. Við tók langt og strangt bataferli, sem enn stendur yfir - en alltaf kallaði Ísland - og nú í byrjun október gengu Zak og Elliot loksins aftur inn á deild 13EG á Landspítalanum við Hringbraut, til að þakka starfsfólkinu þar fyrir lífsbjörgina og stuðninginn. Óhætt er að segja að orðið hafi fagnaðarfundir á kaffistofunni, eins og sést í þættinum í spilaranum hér fyrir neðan.
„Það er tilfinningaþrungið að vera komnir aftur. Það er erfitt að fara hér um gangana, á stað sem ég hélt að yrði minn hinsti hvíldarstaður. Að sjá fólkið sem bjargaði mér og geta horft í augun á því er frábært. Það er græðandi og afar mikilvægt. Það er gott að vera kominn aftur,“ segir Elliot.
Horfa má á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.