Niðurstaðan kemur úr viðhorfskönnun sem félagsfólk í tíu bæjarstarfsmannafélögum tók þátt í. Svarendur voru rúmlega 1900 manns.
Könnunin skoðaði níu þætti, stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd vinnustaðar, ánægju og stolt og jafnrétti.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur fékk hæstu einkunn í sjö af níu þáttum. Í öðru sæti var sveitarfélagið Skagaströnd og Bláskógabyggð í því þriðja. Verðlaunin voru afhent þann 17. október.
Könnun sýndi fram á ánægju svarenda með stjórnendur, stjórnun, starfsskilyrði og starfsanda. Hins vegar var talsverð óánægja með hljóðvist meðal leikskólastarfsmanna. Svarendur sem starfa við öryggis- og eftirlitsstörf voru þá óánægðir með matar- og kaffiaðstöðu og vinnu- og skrifstofurými.
Tíu bæjarstarfsmannafélög stóðu að könnunni, úr Mosfellsbæ, Vestmannaeyjum, Garðabæ, Suðurnesjum, Kópavogi, Hafnarfirði og Húsavík. Einnig voru það Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS stéttarfélag í almannaþjónustu og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi.