Skoðun

Á­skorun - Þing­menn, sýnið kjós­endum stór­hug

Stjórnarskrárfélagið skorar á þingheim að sýna stórhug. Sýnið í verki að þið treystið þjóðinni ef þið viljið að þjóðin treysti ykkur. Komið henni ánægjulega á óvart.

Tækifærið er núna, áður en kjörtímabilið er úti. Þingmenn úr öllum flokkum geta tekið höndum saman og losað um óafsakanlega kyrrstöðu í stjórnarskrármálinu fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember.

Þingmenn geta kveikt von í brjóstum landsmanna um betri tíma og veitt gleðistraumum inn í kosningabaráttuna framundan.

Takið höndum saman, þvert á flokka. Sýnið kjósendum stórhug í verki með því að gera afmarkaða breytingu á stjórnarskrá Íslands þannig að breytingarákvæði hennar verði lýðræðislegra. Tillaga að slíkri breytingu hefur þegar komið fram í þinginu fyrir tilstilli þingmanna Pírata og Samfylkingar og er svohljóðandi:

„1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:

Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Verði slík breyting samþykkt verður hægt að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing. Um leið yrði undirstrikuð í stjórnarskrá sú grunnhugmynd vestræns lýðræðis, að allt vald stafi frá þjóðinni. Að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars:

„Í fyrsta lagi liggur meginþungi umræðu um allar stjórnarskrárbreytingar við lok hvers kjörtímabils eins og málum er nú háttað. Þá eru störf þingsins gjarnan tekin að þyngjast og hætt við að grundvallarbreytingar á stjórnarskránni hljóti ekki þá athygli sem þeim ber.

Í öðru lagi er ekki tryggð nein bein aðkoma almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu. Segja má að með núverandi fyrirkomulagi sé kosið um stjórnarskrárbreytingar samhliða almennum þingkosningum, en reynslan hefur verið sú að kosningar sem haldnar eru í kjölfar slíks þingrofs snúist ekki um inntak breytinga á stjórnarskránni.

Í þriðja lagi sýnir reynsla undanfarinna ára að núverandi fyrirkomulag hefur leitt til þráteflis á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar. Hvort sem um er að ræða stærri eða smærri atriði hefur þinginu ekki auðnast að gera varanlegar breytingar á stjórnarskránni frá því að mannréttindakafla var bætt við árið 1995 og kjördæmamörkum breytt árið 1999.“

Þingmenn! Hér er þjóðþrifaverk að vinna. Grípið tækifærið!

Fyrir hönd Stjórnarskrárfélagsins, Jóna Benediktsdóttir, Hjörtur Hjartarson, Katrín Oddsdóttir, Kjartan Jónsson, Kristín Erna Arnardóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Þórir Baldursson.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×