Enski boltinn

Neville um Tuchel: „Ákveðin von­brigði“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gary Neville var um tíma aðstoðarþjálfari hjá enska landsliðinu.
Gary Neville var um tíma aðstoðarþjálfari hjá enska landsliðinu. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Gary Neville, sparkspekingur og fyrrum landsliðsmaður Englands, segist fyrir ákveðnum vonbrigðum að Thomas Tuchel hafi verið ráðinn þjálfari enska landsliðsins. Hann sé þó góður kostur í starfið.

Tilkynnt var um ráðningu Tuchels í dag en hann tekur til starfa á næsta ári. Sá þýski hefur náð fínum árangri á ferli sínum með Dortmund í heimalandinu, PSG í Frakklandi og Chelsea á Englandi.

„Þeir réðu frábæran þjálfara, það er engin spurning um það. Thomas Tuchel er með flotta ferilskrá og hefur sannað að hann getur unnið erfiða leiki í útsláttarkeppni. Frá því séð, er erfitt að gagnrýna knattspyrnusambandið, og hægt að segja að sambandið hafi fengið besta þjálfarann sem er á lausu í Evrópu,“ segir Neville um ráðninguna.

Vonbrigði hans tengd Tuchel snerti hins vegar á því að hann sé ekki enskur. Gareth Southgate, forveri Tuchel í starfi, náði góðum árangri á sínum tíma með liðið og þá hafa enskir þjálfara getið sér gott orð með yngri landsliðin. Neville hefði því viljað sjá annan Englending taka við og viðhalda þeim kúltúr sem Southgate byggði grunninn að í höfuðstöðvum landsliðsins í St. George's Park.

„En ég er ekki viss um að þetta passi við þróun ensks fótbolta og sé ekki í línu við þá þróun sem við höfum séð í St. George‘s Park undanfarin ár: Trúin á enska þjálfara, auk vaxtarins og árangursins sem hefur náðst með karla- og kvennaliðið, auk yngri landsliða, síðustu sjö til átta ár,“

„Þetta var staðurinn sem sýndi fram á að enskir þjálfarar gætu náð aftur á toppinn í Evrópu. Það er erfitt fyrir enska þjálfara að fá störfin á toppnum og núna er ráðinn þjálfari annars staðar frá í þetta starf, sem eru ákveðin vonbrigði,“ segir Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×