Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna tilkynnti í dag, skömmu eftir að Halla Tómasdóttir forseti Íslands tilkynnti um þingrof, að ráðherrar flokksins myndu ekki sitja í starfsstjórn fram að Alþingiskosningum. Ingibjörg Sólrún skrifaði færslu á Facebook í kvöld þar sem hún hneykslaðist á þessu útspili.
„Í heil 7 ár hafa þau látið sér vel líka að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og staðið fyrir pólitískri stefnu sem var hvorki græn né til vinstri. Nú er stjórnin í andarslitrunum og þá fyllast þau heilögum anda og vilja alls ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum í starfsstjórn í 6 vikur!“ segir í færslunni.
Ekki liggur fyrir hvernig verkefnum verður skipt í starfsstjórninni næstu 45 daga, en kosið verður þann 30. nóvember. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokkinn sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann teldi eðlilegast að ráðherrar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins skiptu milli sín verkum starfsstjórnar.
„Hvernig á maður að skilja þetta? Í þessu endurspeglast skýrar en oft áður að hjá VG er ímyndin allt en inntakið aukaatriði,“ segir jafnframt í færslu Ingibjargar Sólrúnar.