Erlent

Birtu gögn um heilsu Harris og sjúkra­sögu hennar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris hefur hvorki greinst með hjartasjúkdóm né krabbamein.
Harris hefur hvorki greinst með hjartasjúkdóm né krabbamein. AP/Ross D. Franklin

Framboð Kamölu Harris birti í dag skýrslu um heilsu varaforsetans og forsetaframbjóðandans þar sem niðurstaðan er sú að hún sé bæði líkamlega og andlega fær um að sinna forsetaembættinu.

Samkvæmt skýrslunni, sem er í reynd tveggja blaðsíðna vottorð læknis Harris, er varaforsetinn við hestaheilsu. Hún þjáist af árstíðabundnum ofnæmum og notar við þeim ofnæmislyf, nefsprey og augndropa sem hægt er að kaupa án lyfseðils.

Þá hefur hún verið í ofnæmismeðferð í þrjú ár sem miðar að því að draga úr viðbrögðum ónæmiskerfisins.

Farið er yfir heilsufarssögu Harris og greint frá því að hún sé nærsýn, hafi farið í aðgerð á kviði þegar hún var þriggja ára og að ristilkrabbamein sé þekktur í móðurlegg hennar. Annað sé ekki um hana að segja.

Telja má líklegt að birtingu skýrslunnar og heilsufarssögu Harris sé ætlað að stilla henni upp sem heilbrigðari forsetaefninu samanborið við Donald Trump, sem er bæði töluvert eldri og hefur í síauknum mæli vakið athygli fyrir það hvernig hann talar.

Trump hefur á kosningafundum undanfarið talað óskýrt, ruglast og vaðið úr einu í annað, svo eitthvað sé nefnt.

„Berið aldur hennar og lífsþrótt saman við hans,“ sagði einn ráðgjafa Harris í dag.

Trump hefur ítrekað neitað að birta ítarlegar upplýsingar um heilsu sína en framboð hans brást við útspili Harris í dag með því að senda út yfirlýsingu um að forsetinn fyrirverandi væri við afbragðs heilsu og fullfær um að sinna forsetaembættinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×