Handbolti

ÍR náði í stig gegn Fram og Sel­foss hrekkti Eyjakonur

Sindri Sverrisson skrifar
Stjörnukonur náðu að stöðva Gróttu á Nesinu í dag og fagna flottum sigri.
Stjörnukonur náðu að stöðva Gróttu á Nesinu í dag og fagna flottum sigri. vísir/Anton

Óhætt er að segja að spennan hafi verið gríðarleg í leikjum dagsins í Olís-deild kvenna í handbolta. Tvö jafntefli voru gerð og Stjarnan vann Gróttu með tveggja marka mun.

Úrslitin í dag:

  • ÍR - Fram 20-20
  • Grótta - Stjarnan 22-24
  • ÍBV - Selfoss 24-24
  • Valur - Haukar 28-22

Minnsta spennan var á Hlíðarenda þar sem meistarar Vals unnu sex marka sigur gegn Haukum, 28-22, sem hægt er að lesa um með því að smella hér að neðan.

Í Breiðholti náðu ÍR-ingar óvænt í sitt annað stig á tímabilinu, með því að gera 20-20 jafntefli við Framkonur sem þar með missa Val þremur stigum frá sér á toppi deildarinnar.

Fram komst í 20-17 en heimakonur skelltu þá í lás og náðu að skora þrjú síðustu mörkin. Staðan var raunar orðin jöfn þegar enn voru þrjár mínútur eftir en hvorugt liðið náði að finna sigurmark.

Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði fimm mörk fyrir ÍR og þær Hanna Karen Ólafsdóttir og Sylvía Sigríður Jónsdóttir fjögur mörk hvor. Hjá Fram voru Steinunn Björnsdóttir og Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín með fimm mörk hvor.

Selfoss sótti stig til Eyja

ÍBV og Selfoss gerðu einnig jafntefli, 24-24, í suðurlandsslagnum í Vestmannaeyjum. ÍBV var yfir stærstan hluta seinni hálfleiks og komst til að mynda í 20-16 en þá skoruðu gestirnir fimm mörk í röð og komust yfir.

ÍBV náði þó forystunni á ný en Hulda Dís Þrastardóttir jafnaði metin í 24-24 með lokamarki leiksins, rúmri mínútu fyrir leikslok.

Eva Lind Tyrfingsdóttir var markahæst hjá Selfossi með átta mörk og Katla María Magnúsdóttir skoraði fimm. Hjá ÍBV var Birna Berg Haraldsdóttir markahæst með níu mörk og Sunna Jónsdóttir skoraði fimm.

Stjarnan vann á Nesinu

Loks vann Stjarnan 24-22 sigur gegn Gróttu á útivelli, eftir að hafa verið 14-11 yfir í hálfleik.

Embla Steindórsdóttir var markahæst hjá Stjörnunni með sex mörk og þær Tinna Sigurrós Traustadóttir og Anna Lára Davíðsdóttir skoruðu fjögur hvor. Katrín Helga Sigurbergsdóttir var markahæst hjá Gróttu með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×