Íslenski boltinn

„Ég verð bara að setja fleiri í vegginn næst og standa í nærhorninu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Árni Marínó Einarsson hefur verið einn besti markmaður deildarinnar í sumar en fékk slæmt mark á sig í dag. Það kom þó ekki að mikilli sök því ÍA vann 4-1 endurkomusigur.
Árni Marínó Einarsson hefur verið einn besti markmaður deildarinnar í sumar en fékk slæmt mark á sig í dag. Það kom þó ekki að mikilli sök því ÍA vann 4-1 endurkomusigur. vísir / pawel

„Þetta var mjög sætt, sérstaklega í ljósi þess að við fengum á okkur svona heldur slæmt mark í byrjun. Gott að koma til baka og vinna þetta örugglega,“ sagði Árni Marínó, markmaður ÍA, eftir 4-1 endurkomusigur Skagamanna gegn FH.

FH tók forystuna á fyrstu mínútu með marki beint úr aukaspyrnu sem Kjartan Kári þrumaði í nærhornið úr stöðu sem var alls ekki vænleg. Flestir bjuggust við fyrirgjöf en Kjartan sá opnun og skaut að marki.

„Ég held að ég sé að setja of mikið traust á manninn sem ég set í vegginn til að loka nærhorninu, en auðvitað á ég líka að geta bjargað þessu, það er ekki það.“

Þetta er í annað sinn í sumar sem Kjartan Kári skorar beint úr aukaspyrnu á Árna. Þeir voru ekki vinir fyrir og verða það líklega ekki í bráð.

„Neinei, ég hef ekkert á móti honum,“ svaraði Árni, brosti við og setti ábyrgðina á sjálfan sig.

„Ég verð bara að setja fleiri í vegginn næst og standa í nærhorninu eða eitthvað.“

Það eru tveir leikir eftir af tímabilinu og ÍA hefur blandað sér í baráttuna um þriðja sætið eftirsótta. Árni ætlar að passa nærhornið vel og vonar að liðið sæki stigin sem það þarf.

„Við förum bara fulla ferð á það, höfum engu að tapa. Eigum heimaleik aftur næst [gegn Víkingi] og stefnum bara á að sækja þrjú stig þar. Sjáum hvað það dugir okkur,“ sagði Árni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×