Everton og Newcastle United gerðu markalaust jafntefli í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta. Markvörðurinn Jordan Pickford reyndist hetja Everton þegar hann varði vítaspyrnu Anthony Gordon í fyrri hálfleik.
Abdoulaye Doucoure kom Everton yfir í leiknum en markið var á endanum dæmt af vegna rangstöðu eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði það. Eftir rétt rúman hálftíma fengu gestirnir vítaspyrnu. Gordon fór á punktinn en Pickford sá við honum og staðan 0-0 í hálfleik.
Gestirnir voru meira með boltann og sköpuðu sér fleiri færi en inn vildi boltinn ekki og lokatölur í Guttagarði 0-0.
Að loknum sjö umferðum er Newcastle í 6. sæti með 12 stig á meðan Everton er með fimm stig í 16. sæti.