Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Persónuverndar.
Persónuvernd óskar eftir upplýsingum um alla þá sem Heilsugæslan hefur samið við um aðgang að sameiginlegu sjúkraskárkerfi.
Sjá nánar: Sögðu upp fleiri samningum í kjölfar úrskurðarins
Ávörðunin um athugunina kemur vegna úrskurðar Persónuverndar um að ekki hafi verið fyrir hendi skýr lagagrundvöllur fyrir beinum uppflettiaðgangi trúnaðarlæknis Samgöngustofu í sjúkraskrá.
Læknirinn hafði haft aðganginn á grundvelli samnings Samgöngustofu og Heilsugæslunnar.
Í kjölfarið lokaði Heilsugæslan fyrir aðgengi heilbrigðisstarfsfólks hjá Samöngustofu að sjúkraskrám. Samgöngustofa hafði talið nauðsynlegt fyrir trúnaðarlækni stofnunarinnar að fletta upp upplýsingum í sjúkraskrá til að sinna eftirlitsskyldu sinni.
Samgöngustofa sendi frá sér tilkynningu vegna málsins síðdegis í dag, þar sem að sjónarmiði stofnunarinnar var komið á framfæri. Það væri hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á heilbrigði umsækjanda. Því væri um að ræða mikilvægt flugöryggismál.
„Í ljósi nýlegrar umfjöllunar fjölmiðla um aðgang Samgöngustofu að sjúkraskrám, vill stofnunin koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Aðeins yfirlæknir flugsviðs Samgöngustofu hefur aðgang að sjúkraskrám og engir aðrir starfsmenn stofnunarinnar hafa haft eða hafa slíkan aðgang. Yfirlæknir flugsviðs Samgöngustofu vinnur eftir ströngum verklagsreglum og tilgangur skoðana í sjúkraskrá er að leggja mat á heilsufarsgögn umsækjanda um heilbrigðisvottorð fyrir flugliða og flugumferðarstjóra sem og læknaskýrslur fyrir öryggis- og þjónustuliða. Mikilvægt er að yfirlæknir hafi nauðsynleg gögn til þess að leggja mat á heilbrigði umsækjanda um heilbrigðisvottorð, um er að ræða mikilvægt flugöryggismál og mjög strangar kröfur gilda um heilbrigði flugliða, flugumferðarstjóra og þjónustu- og öryggisliða.“