Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofununar þar sem sagt er frá nýjustu íbúatalningu stofnunarinnar.
Framkvæmdir voru hafnar á 7.221 íbúð um allt land í september, samanborið við 7.937 íbúðir í mars síðastliðinn og 8.683 í september 2023.
„Íbúðum í byggingu fjölgar frá síðustu talningu HMS í mars síðastliðnum í Hvalfjarðarsveit og Hveragerðisbæ, en í hvoru sveitarfélagi nemur fjölgunin 31 íbúð. Á höfuðborgarsvæðinu fækkar íbúðum í byggingu í öllum sveitarfélögum nema í Seltjarnarnesbæ þar sem jafnmargar íbúðir eru í byggingu og í síðustu talningu HMS.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur hægst á uppbyggingu og fækkar íbúðum í byggingu um 536 íbúðir sem er samdráttur um 9,7 prósent á milli talninga. Mest fækkar þeim í Hafnarfjarðarbæ eða um 185 íbúðir og næstmest í Garðabæ þar sem 144 færri íbúðir eru í byggingu miðað við síðustu talningu HMS. Í Reykjavíkurborg fækkar íbúðum í byggingu um 27 íbúðir á milli talninga,“ segir í greiningunni.

Áhersla á að klára verkin
Greining HMS sýnir ennfremur að við samanburð nýjustu talningar við fyrri talningar komi í ljós að fjöldi íbúða á fyrri framvindustigum, það er fyrir fokheldi, hafi farið fækkandi í síðustu fimm talningum og hafi ekki verið færri síðan í september 2021.
Færri íbúðir eru í framkvæmdum sem standa í stað milli talninga og telja þær framkvæmdir nú 1.311 íbúðir samanborið við 1.880 íbúðir í marstalningunni fyrr á árinu og 3.929 íbúðir í september fyrir ári síðan.

„Fækkun íbúða sem standa í stað á milli talninga samhliða auknum umsvifum í byggingarframkvæmdum á síðustu misserum gefur til kynna að byggingaaðilar leggi nú meiri áherslu á að klára verkefni sem þegar eru hafin í stað þess að hefja ný verkefni.
Hins vegar eru 454 íbúðir nú á sama stigi og þær voru á í talningu HMS frá septembermánuði í fyrra, en undir venjulegum hraða á framvindu byggingarframkvæmda hefðu þessar íbúðir átt að færast á milli framvindustiga á 12 mánaða tímabili. Því gætu byggingaraðilar þessara íbúða verið í vandræðum með að klára uppbyggingu eða haldið að sér höndum þar til markaðsaðstæður breytast.
Út frá nýjustu talningu gerir HMS ráð fyrir að 3.024 íbúðir verði fullbúnar í ár sem er í samræmi við spá HMS eftir marstalningu fyrr á þessu ári. Áætlað er að 2.897 íbúðir verði fullbúnar árið 2025 og 2.323 íbúðir árið 2026, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Þess má geta að framkvæmdir sem hefjast á næstu mánuðum gætu klárast árið 2026 miðað við tveggja ára framleiðslutíma íbúða og er því spáin fyrir árið 2026 ekki endanleg spá fyrir það ár,“ segir í greiningunni.
