Fótbolti

Fer­tugasti leikur Glódísar og fé­laga í röð án taps

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bayern vann öruggan sigur í kvöld og er eitt á toppnum.
Bayern vann öruggan sigur í kvöld og er eitt á toppnum. Oliver Hardt/Getty Images for DFB

Bayern München vann öruggan 5-1 sigur á Hoffenheim í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta síðdegis. Liðið er eitt á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Bayern getur unnið þýska meistaratitilinn þriðja árið í röð en liðið fór taplaust í gegnum síðasta tímabil. Það var því óvænt þegar Selina Cerci kom Hoffenheim 1-0 yfir í leik dagsins í München á 28. mínútu.

Mark Cerci var af dýrari gerðinni og má sjá ásamt öllum öðrum mörkum leiksins í spilaranum að neðan.

Bayern fékk vítaspyrnu á 42. mínútu leiksins og enska landsliðskonan Georgia Stanway skoraði af öryggi af vítapunktinum til að jafna leikinn. Skömmu eftir það, á lokamínútu fyrri hálfleiksins, kom danska stjarnan Pernille Harder Bæjurum í forystu. Staðan 2-1 í hléi.

Harder var aftur á ferðinni þegar hún tvöfaldaði forskot Bayern þegar tólf mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þá fullkomnaði hún þrennu sína á 88. mínútu.

Sydney Lohmann negldi síðasta naglann í kistu Hoffenheim er hún innsiglaði 5-1 sigur Bayern Munchen í uppbótartíma.

Bayern München hefur nú leikið 40 leiki í röð án taps í þýsku úrvalsdeildinni en síðasta tapið kom í október 2022 þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×