Í þættinum Flugþjóðin sýna þau Inga Dagfinnsdóttir, dóttir Dagfinns Stefánssonar flugstjóra, og Ríkharður Jónsson frá Brúnastöðum okkur bækistöð síldarleitarflugs Loftleiða við Miklavatn.
![](https://www.visir.is/i/15DED29A85BC401A06EC3DD86B96E0A317EF08AC3ECDEFF39CDB036661AA6918_713x0.jpg)
„Hér voru þeir frumkvöðlarnir Alfreð, Kristinn Olsen, pabbi, Smári Karlsson og fleiri. Og þeir flugu hérna daginn út og daginn inn í leit að síldinni. Þarna var verið að byggja upp heila starfsgrein í fluginu,“ segir Inga.
![](https://www.visir.is/i/AD8F4F7A51D8D872536F3BF6D5583728779C6FDD97337F3B1580A2FE4392C9DF_713x0.jpg)
Margar af bestu ljósmyndunum sem til eru frá upphafsárum Loftleiða tók fyrsti flugvirki félagsins, Halldór Sigurjónsson. Sonur hans, Kristinn Halldórsson, varðveitir myndasafn föður síns og sýnir í þættinum fjölda sögulegra mynda, meðal annars frá síldarleitinni.
![](https://www.visir.is/i/75F3E7BF2E452389B763E07A6571CA0D1D6B81CBB6053741FA780AED71158CD3_713x0.jpg)
Systkinin Geirþrúður og Haukur Alfreðsbörn svara því hversvegna talað er um Loftleiðaævintýrið en aðeins tveimur árum eftir stofnun félagsins keyptu Loftleiðamenn fjögurra hreyfla Skymaster-flugvél, fjarka, fyrstu stóru millilandaflugvél Íslendinga.
Ríkharður Jónsson man eftir upphafinu á Miklavatni en hann var þá níu ára gamall. Á vatnsbakkanum sýnir hann okkur minjar frá síldarleitinni og rifjar upp sögur af samskiptum Loftleiðamanna við Fljótamenn.
![](https://www.visir.is/i/E241B6CB68DDB6B071E32727A6B48133009B435E2FF58386D43783C3AA66C766_713x0.jpg)
Þau Inga og Ríkharður lýsa tilverunni við Miklavatn hjá þessum brautryðjendum íslensks atvinnuflugs. Þeir sváfu í tjöldum, veiddu silung í matinn og gerðu við flugvélarnar undir berum himni.
„Það voru böll í Haganesvík, það var kallað Hótel Vík, og ég heyrði að þeir hefðu verið eftirsóttir á þessum böllum, af kvenþjóðinni. Þeir fóru í sínum flugbúningi og húfu og þá náttúrlega tóku þær eftir þeim. Þeir áttu séns,“ segir Ríkharður.
![](https://www.visir.is/i/8479CB2989E98077B510915B37934F570F3205647F1550C2DF368643C044E6A9_713x0.jpg)
Í þættinum er heilsað upp á fyrrum Loftleiðastarfsmenn í Aðdáendaklúbbi Loftleiða en einnig flugfreyjur sem unnu hjá Loftleiðum og kalla sig Átturnar. Þær hafa meira að segja fyrrverandi forsætisráðherra í hópnum, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hóf ferilinn á DC 6-vélum.
Þátturinn um Loftleiðir verður endursýndur á Stöð 2 síðdegis í dag, sunnudag, klukkan 16:55. Hér má sjá tíu mínútna myndskeið úr þættinum:
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvenær sem er.
Fjórði þáttur er á dagskrá annaðkvöld, mánudagskvöld, klukkan 19:10. Hann fjallar um umfang flugstarfsemi á Íslandi og efnahagsáhrif hennar.