Erlent

Ríkis­stjórn mynduð í Frakk­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Parísarbúar voru byrjaðir að mótmæla áður en ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar voru tilkynntir.
Parísarbúar voru byrjaðir að mótmæla áður en ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar voru tilkynntir. EPA/Andre Pain

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur skipað nýja ríkisstjórn undir forystu forsætisráðherrans Michel Barnier. Hann tók við embætti forsætisráðherra fyrir tveimur vikum en stjórnarkreppa hefur verið í landinu frá því að gengið var til kosninga í sumar.

Guardian greinir frá þessu.

Þegar niðurstöður þingkosninganna í Frakklandi í sumar lágu fyrir var ljóst að enginn flokkur eða bandalag flokka hefði hlotið afgerandi umboð á þingi. Bandalag vinstriflokka, Nouveau Front Populaire, tryggði sér stærstan hluta þingsæta, 180 af 577, en þó langt frá meirihluta.

Ákvörðun Macron um að útnefna hægrimanninn Michel Barnier forsætisráðherra féll ekki í kramið hjá öllum. Verkalýðsforystan og vinstrihreyfingar boðuðu til mótmæla um landið allt í kjölfarið.

Barnier er íhaldsmaður og leiddi meðal annars samninganefnd Evrópusambandsins vegna útgöngu Bretlands. Fyrsta verkefni ríkisstjórnar Barniers verður að leggja fram fjármálaáætlun fyir næsta ár. Hann hefur sjálfur sagt stöðuna í efnahagsmálum þar í landi alvarlega.

Viðbrögð stjórnmálaleiðtoga til vinstri og til hægri hafa verið afgerandi óánægja. Jordan Bardella, leiðtogi jaðarhægriflokksins Rassemblement national, sagði ríkisstjórnina ekki eiga sér framtíð. Hinum megin á hinu pólitíska rófi kallaði Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi Óbeygðs Frakklands, ríkisstjórnina „stjórn þeirra sem töpuðu þingkosningunum.“


Tengdar fréttir

Barnier nýr forsætisráðherra Frakklands

Michel Barnier verður næsti forsætisráðherra Frakklands. Emmanuel Macron, forseti landsins, tilkynnti um það í morgun. Barnier var áður aðalsamningamaður Evrópusambandsins og leiddi til dæmis samningaviðræðurnar þegar Bretar gengu úr úr samningu, Brexit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×