Náttúruvárstofnun Brasilíu segir að þurrkurinn sé sá ákafasti og víðfeðmasti sem um getur. Það sé sérstakt áhyggjuefni að hann eigi sér stað tiltölulega snemma á þurrkatímabili sem stendur alla jafna yfir frá júní til nóvember. Ástandið gæti því mögulega ekki skánað fyrr eftir fleiri mánuði.
Solimões, ein helsta þverá Amasonfljóts, hefur aldrei mælst lægri við brasilíska bæinn Tabatinga við landamæri Kólumbíu. Áin Tefé, ein kvísl Solimões, var algerlega uppþornuð þegar fréttamaður Reuters flaug yfir á sunnudag. Tefé-vatn er einnig uppþornað. Fleiri en tvö hundruð ferskvatnshöfrungar drápust í miklum þurrki þar í fyrra.
Þurrkurinn á vatnasviði Amason í fyrra var sá versti í mælingasögunni. Loftslagsvísindamenn komust að þeirri niðurstöðu að hnattræn hlýnun af völdum manna hefði margfaldað líkurnar á honum. Veðurfyrirbrigðið El niño átti einnig sinn þátt en því fylgir að jafnaði meiri hlýindi og þurrkur í Amasonskóginum en ella.
Eyðing Amasonfrumskógarins getur einnig aukið á þurrkinn þar sem tré útgufun þeirra eykur raka í lofti. Þurrkurinn skapar aftur aðstæður við skógarelda sem ganga enn á skóginn.
Erfiðlega gengur að koma nauðsynjum til íbúa sem búa við árnar. Brasilíska náttúruvárstofnunin segir að í fleiri en hundrað byggðarlögum hafi ekki regndropið fallið úr lofti í meira en 150 daga.
„Við festum bát hérna og hann var fastur á þurru landi daginn eftir. Við höfum enga leið til þess að færa hann,“ segir Josué Oliveira, veiðimaður í Manacapuru við bakka Solimões, við breska ríkisútvarpið BBC.