Þetta segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, í Bændablaðinu um fyrirhugaðan vindmyllugarð við Búrfell.
Sveitarstjórnin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur gagnrýnt áform um svokallaðan Búrfellslund en Haraldur fordæmir meðal annars að á meðan vindmyllugarðurinn muni hafa áhrif á þrjú sveitarfélög hafi aðeins eitt þeirra, Rangárþing ytra, stjórnsýslulega aðkomu að málinu.
„Við viljum meina að skuggavarpið og hljóðmengunin sé takmörkun á landnotkun okkar sveitarfélags,“ segir Haraldur.
Hann gagnrýnir einnig að nú þegar sé búið að selja orkuna en Landsvirkjun hafi gert orkusamning við Laxey í Vestmannaeyjum þar sem ein af forsendunum er sú að Búrfellslundur verði kominn í notkun í árslok 2026.
Haraldur segir ávinning nærsamfélagsins af vindorkugörðum engan. Um sé að ræða enn eitt orkuverið sem rísi á landsbyggðinni þar sem efnahagslegu áhrifin og ávinningurinn verða annars staðar.
„Ég hef sagt það í langan tíma að þessi sveitarfélög úti á landi sem eru með orkumannvirki eru eins og þriðja heims ríki þar sem aðrar þjóðir koma og taka auðlindirnar og fara með þær.
Uppsett afl sem framleitt er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er yfir 500 megavött. Það er nóg fyrir öll heimili og fyrirtæki á Íslandi ef þú undanskilur þessa ellefu viðskiptavini sem eru stórnotendur. Ávinningur okkar af þessari starfsemi er ekki til staðar. Það er komið að skuldadögum í þessum málum, við munum ekki sætta okkur við óbreytt ástand,“ segir Haraldur.