Bergrún útskýrir að nornahárin hafi myndast í flestum gosanna síðustu ár á Reykjanesi en ekki í eins miklum mæli og núna. Þau myndist helst þegar kvikustrókarnir eru háir og þeir séu það núna. Þeir hafi síðast verið það í eldgosinu í Geldingadölum í maí 2021 og þá hafi verið töluvert af nornahári. Fólk í Grindavík til dæmis hafi orðið vart við nornahárin.
„Þetta er í rauninni gjóska. Kvikan sem kemur upp,“ segir Bergrún Arna.
„Þetta eru kvikudropar og í hraðanum þar sem efnið er að þeytast upp frá gosstöðvunum teygist á efninu og þetta myndar þessa glerjuðu þræði. Þetta er í rauninni gler,“ segir Bergrún.
Hún segir glerið geta valdið skemmdum og ef það er til dæmis á bílum sé ekki gott að nudda því af heldur sé betra að blása eða skola nornahárinu af.
Þá segir hún einnig gott að skola til dæmis trampólín ef það eru nornahár á þeim.
Hún segir fólk líka geta meitt sig ef það heldur á miklu magni nornahára.
Ekki gott að fikta í þeim
„Það nornahár sem ég hef séð í þessum atburði. Þau eru í rauninni mjög þunn,“ segir hún og að hún hafi ekki meitt sig en hún ráðleggi ekki neinum að fikta í þessu.
„En engin aðsteðjandi hætta og gaman að fylgjast með náttúruundrinu í stað þess að hræðast þau,“ segir
Hún segir hárin mjög létt og geta borist langt. Það fari eftir veðuraðstæðum en þau geti borist töluverða vegalengd. Hún segist hafa heyrt af þessu núna á Reykjanesi og á Keflavíkurflugvelli. Hún segist sjálf hafa séð nokkuð mikið af þessu í kringum gosstöðvarnar, í um fimm eða sex kílómetra fjarlægð frá gosstöðvunum.
„Það brakar ekki þegar þú gengur á þessu, ekki nema það sé í það miklu magni.“
Havísk gyðja og íslensk norn
Hún segir töluvert magn af nornahárum hafa myndast líka í eldgosinu í Holuhrauni 2015. Þá hafi myndast vöndlar af nornahári í vindinum sem hafi skoppað yfir sandinn. En það fari svo eftir lengd háranna hvernig ásýnd þeirra er.

Hún segir þau eflaust brotna niður á endanum. Hún hafi ekki séð mikið af nornahárum í gamalli gjósku en svo þau myndu finnast löngu eftir eldgos þurfi að varðveitast töluvert mikið af því.
Varðandi nafnið á þessu fyrirbæri segir Bergrún að á ensku heiti þetta Pele´s Hair og að Pele sé gyðja eldfjallanna á Havaí en að hún viti ekki hvernig orðið nornahár kom til á íslensku.
„En mér finnst þetta mjög flott orð og sérstaklega þegar þetta vöðlast svona saman og verður í rauninni eins og ljósir lokkar. Þá á þetta mjög vel við,“ segir hún.