Þótt Elysian sé nýtt fyrirtæki í flugiðnaði byggir það á meira en aldargamalli reynslu Hollendinga af smíði flugvéla. Verkefnið er þróað í samstarfi við Delft-tækniháskólann og fleiri vísindastofnanir. Bakhjarlar þess eru meðal annarra Netherlands Aerospace Center og Fokker Services Group.
Flugvélin, sem nefnd er E9X, er enn sem komið er eingöngu til á pappírnum. Fyrirtækið stefnir að því að smíða líkan í fullri stærð innan tveggja til þriggja ára og að frumgerðin hefji tilraunaflug árið 2030, eftir sex ár. Gert er ráð fyrir átta hreyflum og að vænghafið verði 42 metrar.

Talsmenn Elysian segjast ætla að byggja flugvélina á rafhlöðutækni sem þegar sé til staðar. Þeir hafi spurt sig hvernig fá mætti hámarksdrægi úr þeim rafhlöðum sem núna þekktist.
Rafhlöður verða innbyggðar í vængina og verða hlutfallslega fyrirferðarmiklar, geymi þannig meira rafmagn og vegi mikið af heildarþyngd flugvélarinnar. Á móti verði aðrir hlutar hennar hafðir léttari, bæði skrokkurinn með þynnri málmi og hreyflarnir mun léttari en hefðbundnir flugvélahreyflar.

Rafmagnsflugvélin er þróuð miðað við 1.000 kílómetra flugdrægi til að eiga varaafl fyrir 800 kílómetra flugleið. Hún myndi þannig auðveldlega geta þjónað öllum innanlandsleiðum á Íslandi. Þannig er loftlínan milli Reykjavíkur og Akureyrar um 250 kílómetra löng og loftlínan milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 380 kílómetra löng. Þá er loftlínan milli Reykjavíkur og Færeyja rétt um 800 kílómetrar.