Lífið

Missti móður sína og systur sama daginn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mariah Carey. MYND/Cover Media
Mariah Carey. MYND/Cover Media

Bæði móðir og systir bandarísku söngkonunnar Mariah Carey létust um helgina. Dánarorsök þeirra eru enn ókunn. 

Frá þessu greinir miðillinn People og hefur fregnirnar eftir yfirlýsingu Carey til miðilsins. 

„Hjarta mitt er brotið eftir að ég missti móður mína um helgina. Því miður, í sorglegri atburðarás, lét systir mín lífið sama dag,“ er haft eftir Carey. „Ég kann að meta þá ást og umhyggju sem mér hefur verið sýnd og næði á þessum óhugsandi tíma í mínu lífi.“

Eins og áður segir liggur ekki fyrir að svo stöddu hvað hafi hent þær Patriciu, móður Carey, og Alison, systur hennar, að svo stöddu. 

Patricia var óperusöngkona og gift Alfred Roy Carey, en þau skildu þegar Mariah var þriggja ára. Þau eignuðust saman þrjú börn, þau Mariah, Alison og soninn Morgan. Á síðari árum sneri Patricia sér að söngkennslu.

Í umfjöllun People kemur fram að mæðgurnar Patricia og Mariah hafi átt í flóknu sambandi. Vísað er til orða Mariah í bók hennar frá árinu 2020, The Meaning of Mariah Carey. „Samband okkar er þyrnum stráð og einkennist af stolti, sársauka, sektarkennd, þakklæti, öfundsýki, aðdáun og vonbrigðum,“ skrifaði Carey. „Flókin ást tengir hjarta mitt við hjarta móður minnar.“

Sama hafi átt við um samband Carey við systurina Alison. Í sömu bók segir Carey að það hafi verið „öruggara, tilfinningalega og líkamlega, að hafa ekki samband“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×