Innlent

Tvö hjól­hýsi splundruðust í vind­hviðum á Lyng­dals­heiði

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá slysstað á Lyngdalsheiðarvegi nú í kvöld. Sendiferðabíll sem var með hjólhýsi í eftirdragi valt og endaði á þakinu á miðjum veginum.
Frá slysstað á Lyngdalsheiðarvegi nú í kvöld. Sendiferðabíll sem var með hjólhýsi í eftirdragi valt og endaði á þakinu á miðjum veginum. Aðsend

Engin slys urðu á fólki þegar sendiferðabíll valt og endaði á þakinu og tvö hjólhýsi splundruðust í sterkum vindhviðum á Lyngdalsheiði síðdegis. Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi segir ekkert ferðaveður með ferðavagna á svæðinu.

Fyrsta tilkynning um slys barst lögreglunni um fjögur leytið en skömmu síðar var tilkynnt um annað óhapp á nánast sama stað á Lyngdalsheiðarvegi. Annars vegar hafði sendiferðabíll með hjólhýsi oltið og hjólhýsið fokið út af veginum og hins vegar hafði annað hjólhýsi fokið og eyðilagst þar. Sendiferðabíllinn endaði á hvolfi á miðjum veginum.

Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að vegurinn um Lyngdalsheiði sé lokaður. Á vef vegagerðarinnar kemur fram að veginum hafi verið lokað klukkan 18:26 vegna óhappanna.

Annað hjólhýsanna sem fauk út af veginum og stórskemmdist á Lyngdalsheiðarvegi.Aðsend

Vinna á vettvangi var enn í gangi á áttunda tímanum í kvöld. Þorsteinn segir ekkert ferðaveður á svæðinu og hvassviðri og hjólhýsi fari almennt illa saman.

Gular viðvaranir vegna norðan hvassviðris eru í gildi á landinu norðan- og vestanverðu en ekki á Suðurlandi. Þorsteinn segir að vindhviður upp í 24 metra á sekúndu hafi þó mælst á Þingvallavegi og 27 metrar á sekúndu á Hellisheiði í dag.

Sjónarvottur sem átti leið um slysstaðinn nú í kvöld segir bálhvasst og þar gangi á með sterkum vindhviðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×