FH vann ótrúlegan endurkomusigur á Keflavík suður með sjó, 3-4. Keflvíkingar komust í 3-0 eftir hálftíma með tveimur mörkum Airelu Lewis og einu frá Saorla Miller en FH-ingar sneru dæminu sér í vil í seinni hálfleik.
Snædís María Jörundsdóttir, Hildur Katrín Snorradóttir, Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir og Breukelen Woodward skoruðu mörk gestanna í seinni hálfleik og þeir sneru aftur heim í Hafnarfjörðinn þremur stigum ríkari.
Keflavík er áfram með níu stig á botni deildarinnar en FH er með 25 stig í 5. sætinu og öruggt með sæti í efri hlutanum fyrir úrslitakeppnina.
Þór/KA heldur áfram að tapa stigum en liðið gerði 2-2 jafntefli við Stjörnuna fyrir norðan. Margrét Árnadóttir kom Akureyringum yfir en Stjörnukonur svöruðu með mörkum Hrefnu Jónsdóttur og Úlfu Dísar Kreye Úlfarsdóttur. Sandra María Jessen tryggði Þór/KA svo jafntefli þegar hún skoraði átta mínútum fyrir leikslok. Hún er langmarkahæst í deildinni með átján mörk.
Stjarnan er í 6. sæti deildarinnar með 21 stig en Þór/KA er í 3. sætinu með 29 stig, jafn mörg og Víkingur sem er í 4. sætinu.
Víkingur rúllaði yfir Tindastól, 5-1, í Víkinni í gær. Heimakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnar í 4-0 eftir 24 mínútur. Linda Líf Boama skoraði tvívegis og Bergdís Sveinsdóttir og Freyja Stefánsdóttir sitt markið hvor.
Shaina Ashouri skoraði svo fimmta markið í upphafi seinni hálfleiks en Elísa Bríet Björnsdóttir lagaði stöðuna fyrir Tindastól á lokamínútu leiksins. Stólarnir eru í 8. sæti deildarinnar með tólf stig.
Mörkin úr leikjunum þremur í Bestu deild kvenna í gær má sjá hér fyrir ofan.