Skoðun

Nauð­syn­legt að sam­eina verndun og nýtingu orku með stuðningi staðla

Haukur Logi Jóhannsson skrifar

Deilur um vindorkugarða og virkjanaframkvæmdir á Íslandi hafa lengi verið áberandi í þjóðfélaginu, en mikilvægi þeirra hefur aukist í ljósi loftslagsvandans sem kallar á tafarlausar aðgerðir. Á sama tíma er nauðsynlegt að vernda einstaka náttúru landsins. Togstreitan milli náttúruverndar og orkunýtingar kallar á skýra stefnu sem tekur tillit til beggja sjónarmiða, og hér geta staðlar í umhverfismálum leikið lykilhlutverk.

Náttúruverndarsamtök eins og Landvernd leggja áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og endurheimta röskuð vistkerfi. Þessi nálgun er grundvallaratriði í að tryggja að Ísland haldi áfram að vera leiðandi í loftslagsmálum. Hins vegar er mikilvægt að ná jafnvægi milli náttúruverndar og orkunýtingar, sérstaklega þar sem orkuþörf landsins mun aukast með tímanum.

Hlutverk staðla í náttúruvernd og nýtingu

Staðlar geta veitt mikilvæga leiðsögn og stuðning við að ná þessum jafnvægi. Umhverfisstaðlar, eins og ÍST EN ISO 14001, setja fram kröfur um stjórnkerfi umhverfismála sem fyrirtæki og stofnanir geta nýtt sér til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Með því að fylgja slíkum stöðlum geta orkuver og aðrir aðilar sem standa að stórum framkvæmdum tryggt að þau uppfylli ströng umhverfisskilyrði og draga þannig úr neikvæðum áhrifum á náttúruna.

ÍST EN ISO 14001 er ekki eini staðallinn sem getur nýst. Einnig eru til sértækir staðlar sem miða að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, eins og ÍST EN ISO 50001 um orkunýtingu. Með því að fylgja þessum stöðlum geta fyrirtæki og stofnanir tryggt að þau nýti orku á skilvirkan hátt og dragi þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda, án þess að skerða náttúru landsins óhóflega.

Vindorkugarðar og staðlar

Vindorkugarðar eru hluti af lausninni til að mæta orkuþörf og ná loftslagsmarkmiðum Íslands, en þeir þurfa að vera skipulagðir með virðingu fyrir náttúrunni. Staðlar eins og ÍST EN ISO 14001 geta tryggt að framkvæmdir fari fram með tilliti til umhverfisins, með áherslu á að lágmarka neikvæð áhrif. Til dæmis má með slíkum stöðlum tryggja að vindorkugarðar séu staðsettir á svæðum sem hafa minna náttúruverndargildi og að áhrif þeirra séu metin ítarlega áður en framkvæmdir hefjast.

Íslensk stjórnvöld og fyrirtæki geta einnig nýtt sér staðla til að bæta samskipti við samfélagið og tryggja að hagsmunir allra séu virtir. Með því að innleiða staðla fyrir samfélagsábyrgð, eins og ÍST EN ISO 26000, geta fyrirtæki sýnt samfélagslega ábyrgð með þátttöku í ákvarðanatökuferli og stuðlað að trausti milli þeirra og almennings.

Stefna til framtíðar með stuðningi staðla

Til þess að Ísland geti náð framúrskarandi árangri í loftslagsmálum og orkunýtingu er nauðsynlegt að stjórnvöld móti stefnu sem byggir á að nýta staðla sem verkfæri til að tryggja jafnvægi á milli verndar og nýtingar. Slík stefna gæti tekið mið af öllum þeim þáttum sem skipta máli, eins og umhverfisvernd, orkunýtingu, nýsköpun og tækniþróun.

Staðlar geta einnig stuðlað að auknu gagnsæi og bættum samskiptum milli opinberra aðila, fyrirtækja og almennings. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að orkuframleiðsla og orkunotkun snerta samfélagið allt og hafa áhrif á alla landsmenn.

Það er ljóst að samspil náttúruverndar og orkunýtingar kallar á nýjar lausnir og samvinnu. Staðlar geta verið öflugt verkfæri til að tryggja að sú samvinna sé byggð á traustum grunni sem stuðlar að sjálfbærri þróun. Með því að nýta staðla sem leiðsögn geta stjórnvöld, fyrirtæki og samfélagið allt unnið saman að því að tryggja framtíðarvelferð Íslands í loftslagsmálum án þess að fórna einstökum náttúruauðlindum landsins. Þetta er leiðin til að sameina vernd og nýtingu orku með það að markmiði að tryggja sjálfbæra framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur og verkefnastjóri hjá Íslenskum stöðlum




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×