Þetta segir Bjarni Þorsteinsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Borgarbyggðar og biðlar til ökumanna sem fastir eru í umferð að sýna biðlund. Vonast sé til að hægt verði að opna veginn aftur innan skamms.
Tilkynning barst um eldinn á sjöunda tímanum í kvöld og tókst að slökkva hann á innan við tuttugu mínútum. Að sögn Bjarna varð bílstjóra vörubílsins ekki meint af og hann búinn að færa ökutækið eins utarlega á veginum og hægt var. Enginn hafi verið fluttur til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun vegna málsins.
Bílstjórar þurfi að anda með nefinu
Nokkuð hefur verið um umferðartafir vegna eldsins. Að sögn vegfaranda hefur umferð stöðvast við Hafnarfjall nærri Borgarfjarðarbrú. Sá hann svartan reyk stíga til lofts í fjarska.
„Fólk verður bara aðeins að anda með nefinu. Íslendingar þurfa stundum að gera það,“ segir Bjarni. Klukkan 19:45 tilkynnti Vegagerðin að hreinsistarf væri enn í gangi og vonað að fljótlega yrði hægt að hleypa umferð í gegn í hollum.
Uppfært klukkan 21.05: Búið er að opna aftur fyrir umferð um veginn undir Hafnarfjalli.