Upp­gjör og við­töl: KR - FH 1-0 | Fyrsti heimasigur Vesturbæinga í hús

Hjörvar Ólafsson skrifar
Aron Þórður fagnar marki sínu.
Aron Þórður fagnar marki sínu. Vísir/Diego

KR vann FH í 18. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í leik liðanna á Meistaravöllum í kvöld. Um var að ræða fyrsta heimasigur KR-liðsins á leiktíðinni og í fyrsta skipti sem liðið heldur marki sínu hreinu á tímabilinu. 

Það var Aron Þórður Albertsson sem tryggði KR stigin þrjú með sigurmarki sínu undir lok fyrri hálfleiks. Luke Rae átti þá góðan sprett upp að endamörkum vinstra megin, enski kantmaðurinn kom með góða fyrirgjöf og Aron Þórður kláraði færið af stakri prýði. 

Luke Rae lagði upp mark KR í leiknum. Vísir/Pawel

Liðin skiptust á að hafa yfirhöndina í fyrri hálfleik en Logi Hrafn Róbertsson komst næst því að skora fyrir FH þegar skot hans small í stöngina. 

Sigurinn er ofboðslega langþráður fyrir KR-liðið en síðasti deildarsigur hjá Vesturbæingum kom 20. maí en það var einmitt gegn FH í Kaplakrika. Síðan þá hefur KR spilað níu deildarleiki án þess að takast að landi sigri. 

KR-ingar hafa gert fimm jafntefli og beðið ósigur í fjórum leikjum og sogast niður í fallbaráttu. KR hefur nú 18 stig og er komið fjórum stigum fyrir ofan Vestra og HK og fallsvæði deildarinnar. Skagamenn höfðu betur gegn Fram í kvöld og jöfnuðu FH þar af leiðandi að stigum en liðin hafa 28 wtig í fjórða til fimmta sæti.

Hart barist í vítateignum í hornspyrnu. Vísir/Pawel

Pálmi Rafn: Hefði viljað spilar undir stjórn Óskars Hrafns

„Ég held að það hafði verið brjáluð vinnusemi og barátta sem skóp þennan sigur. Það er fáránlegt að við séum að halda markinu hreinu í fyrsta skipti í sumar og að fyrsti heimasigurinn sé í höfn á þessum tímapunkti. En guð minn góður hvað hann var kærkominn,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason, þjálfari KR. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson kom nýverið inn í þjálfarateymi KR-liðsins og Pálmi Rafn er sáttur við hans innkomu: „Óskar Hrafn hefur komið með ferska rödd og kraft inn á æfingasvæðið. Þetta er frábær þjálfari og það er bara synd að ég hafi ekki fengið að spila undir hans stjórn. Ég held að ég hefði verið flottur undir hans stjórn,“ sagði Pálmi um samstarfsmann sinn. 

Aðspurður um hvort það væru leikmenn á leið í Vesturbæinn áður en lokað verður fyrir félagaskipti á morgun: „Óskar Hrafn er alltaf með augun opin og það getur vel verið að við náum að bæta við leikmannahópinn. Það eru leikmenn að detta aftur inn úr meiðslum og það er stutt í þá sem eru á meiðslalistanum fyrir utan Hrafn Tómasson sem er með slitið krossband,“ sagði hann.  

Pálmi Rafn í þungum þöndum á meðan á leiknum stóð. Vísir/Pawel

Heimir: Slakasata frammistaða okkar í sumar

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með liðið mitt og ég held að þetta sé slakasta frammistaðan okkar í sumar. Það var kraftur í okkur fyrsta korterið og við vorum að spila eins og lagt var upp með á þeim tíma. Eftir það slokknaði bara á okkur og við vorum ólíkir sjálfum okkur,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.  

„Seinni hálfleikurinn var mjög slakur og við náðum engum takti í okkar leik. Við fengum fá færi til þess að jafna metin og því fór sem fór. Við viljum vera í baráttu um Evrópusæti og við þurfum að spýta í lófana til að vera áfram þar,“ sagði Heimir. 

„Við höfum misst þrjá leikmenn sem geta spilað hægri bakvörð síðan tímabilið hófst og það er ljóst að við þurfum liðsstyrk þar. Við settum það markmið að vera að berjast um sæti í Evrópukeppni og ef við ætlum að vera þar þá þurfum við að styrkja okkur í bakvarðarstöðunni hægra megin. Ég er að vona að við náum að bæta við leikmanni áður en glugginn lokar,“ sagði hann. 

Heimir Guðjónsson vill styrkja hóp sinn. Vísir/Pawel

Atvik leiksins

Það sem stóð upp úr var sigurmarkið sem Aron Þórður skoraði. Þess fyrir utan fengu bæði lið fín færi til þess að skora en Logi Hrafn, Ísak Óli Ólafsson og Vuk Óskar Dimitrijevic komust næst því að sjá til þess að næla í stig fyrir gestina úr Hafnarfirðinum. 

Stjörnur og skúrkar

Axel Óskar Andrésson og Jón Arnar Sigurðarson áttu góðan leik í hjarta varnarinnar hjá KR og Jón Arnar spilaði eins og þrauteyndur miðvörður. Atli Sigurjónsson var góður á báðum endum vallarins í vinstri bakverðinum sem og kollegi hans Jóhannes Kristinn Bjarnason hægra megin. Fyrir utan það að skora sigurmarkið var Aron Þórður öflugur inni á miðsvæðinu. Luke Rae var svo síógnandi á vinstri kantinum. 

Hjá FH var Kjartan Kári Halldórsson hættulegastur í sóknarleik FH, Logi Hrafn tók mikið til sín inni á miðsvæðinu. Sindri Kristinn Ólafsson var síðan öruggur í sínum aðgerðum í marki FH-liðsins og greip nokkrum sinnum vel inn í með góðum úthlaupum. 

KR-ingar fagna marki Arons Þórðar með stuðningsmönnum sínum. Vísir/Pawel

Stemming og umgjörð

Ágætlega mætt í Vesturbæinn í kvöld og léttur andi yfir fólki. Stuðningsmönnum KR var mjög létt þegar lokaflautið gall og fóru loksins brosmildir úr stúkunni. Völlurinn fagurgrænn, sléttur og rakur sem bauð upp á skemmtilegan fótbolta.

Dómarar leiksins

Það reyndi lítið á Ívar Orra Kristjánsson og dómarateymi hans og leikurinn fékk bara að flæða vel. Engar ákvarðanir sem reittu þjálfara liðanna eða stuðningsmenn verulega til reiði sem er vel. Þessi frammistaða færi honum sjö í einkunn. 

Vuk Óskar og Atli Sigurjónsson berjast um boltann. Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira