„Hér er vatnsbólið sem ég nota, og vatnið hér hefur verið það djúpt venjulega að það er ekki stígvélatækt. Núna nær það ekki upp á rist á stígvélinu. Inni í tunnunni er dælan farin að draga sand.“
Svona lýsir Jón Árni Þórisson, sumarbústaðareigandi í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu, stöðunni á vatnsbólinu sem hann hefur notað í bústað sinn, í myndskeiði sem sjá má í upphafi fréttarinnar hér að neðan.
Áður hefur verið fjallað um vatnsleysi og þurrk í Grenlæk, sem áður var gjöful sjóbirtingsá í Landbroti, en er nú þurr á um ellefu kílómetra kafla. Landeigandi við lækinn segir ástæðuna vera garð sem reistur var til að hindra flæði vatns út á Eldhraun, í þeim tilgangi að verja þjóðveginn, og mosa á hrauninu.
Jón Árni tekur undir þá kenningu.
„Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ég hef séð vídeó af læknum þegar hann mætir í farveginn, nokkrum dögum eftir að garðurinn var rofinn í framhaldi af þurrki 2016. Það er mjög sláandi sönnun um það.“
Hver bendi á annan
Jón segist hafa vakið máls á stöðunni við Umhverfisstofnun í maí, sem hafi sagt honum að málið væri í vinnslu annars staðar.
„En ég veit ekki hvar. Það virðist hver vísa á annan í þessu máli. Því miður.“
Jón segist enn geta dælt vatni í bústaðinn, en dælan taki reglulega í sig sand vegna lágrar stöðu grunnvatnsins. Illt verði í efni ef staðan versni meira.
„Ég hef ekki aðgang að vatni neins staðar annars staðar hérna.“