Bubbi velkist ekki í vafa þar um. Hann telur Þórarinn Inga kolrangstæðan.
„Hvergi í nokkru landi í kringum okkur eða landi sem við miðum okkur við væri það látið gerast að maður í hans stöðu fengi að koma nálægt þessum gjörningi. Ekki vegna þess að hann væri talinn óheiðarlegur eða spilltur heldur til að tryggja að hugmyndir um slíkt ættu ekki möguleika á að koma uppá yfirborð umræðunnar,“ segir Bubbi í grein sem hann birtir á Vísi.
Bubbi segir nýsamþykkt lög sem fóru í gegnum atvinnuveganefnd með hann sem formann opna flóðgáttir sem verður ekki lokað.
„Dómgreindarleysi formannsins er algert og vanmat á aðstæðum. Þó allt sé skráð í hagsmunaskrár alþingis um eignarhlut hans er það deginum ljósara að svona gerir maður ekki ... nema jú á Íslandi af því svona vinna kjörnir alþingismenn margir hverjir.“
Bubbi segir að það eina sem við sem almenningur í þessu landi getum gert, líki okkur ekki vinnubrögð sem þessi, er að muna svona nokkuð í næstu kosningum. Því börnin okkar eigi betra skilið. „Við eigum öll betra skilið en svona vinnubrögð og gjafagjörninga.“