Í vikunni varð það nefnilega endanlega ljóst að Elísabet væri ekki ein af þeim Íslendingum sem fá að keppa á Ólympíuleikunum í París.
„Frábært tímabil heilt yfir en það er virkilega svekkjandi að vera aðeins einu sæti frá Ólympíuleikunum,“ skrifaði Elísabet Rut.
Það er hægt að taka undir það að þetta var frábært tímabil en hún bætti Íslandsmetið þrisvar sinnum og varð fyrsta íslenska konan til að kasta sleggjunni yfir sjötíu metra.
Lengsta kastið og núverandi Íslandsmet er 70,47 metra kast í byrjun júnímánaðar.
„Það er súrsætt að vera svona ofboðslega nálægt því að upplifa drauminn um að keppa á Ólympíuleikunum,“ skrifaði Elísabet. Hún er bara 22 ára gömul og fær vonandi tækifæri til að keppa á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028.
„Ég er svo stolt af þeirri miklu vinnu sem ég lagði á mig á öllu þessu tímabili. Ég er um leið sorgmædd yfir því að það dugði ekki,“ skrifaði Elísabet.
Hún gerði frábæra hluti í keppni bandarísku háskólanna þar sem hún varð háskólameistari NCAA í byrjun júní. Elísabet setti Íslandsmetið þegar hún tryggði sér sigurinn.
„Núna er kominn tími á að hvíla sig og byrja síðan aftur á fullu,“ skrifaði Elísabet eins og sjá má hér fyrir neðan.