Þó þurfum við að mæta til vinnu. Erum kannski leið, reið eða með áhyggjur af einhverju heima fyrir. Eða að upplifa reiði, leiða eða aðra vanlíðan út af einhverju í vinnunni.
Í flestum tilfellum sést á okkur þegar líðanin er ekki góð. Sérstaklega í vinnunni, enda vinnuvikan drjúgur tími af okkar lífi almennt. Þegar svo er, kemur oft upp sú staða að vinnufélagar og yfirmaður velta fyrir sér hvað sé réttast að gera.
Á að nálgast starfsmanninn og ræða hvað sé að?
Eða á að bíða eftir því að málin lagist?
Í ágætri grein Harvard Business Review er mælt með því að yfirmaður láti sig málið varða. Enda hefur vanlíðan oftast áhrif á ýmiss atriði í vinnunni. Allt frá samskiptum yfir í afköst og framleiðni.
Samkvæmt rannsóknum, er það hins vegar betra að yfirmaður nálgist starfsmann sem augljóslega er í vanlíðan. Skiptir þá engu hvort sú vanlíðan er reiði, leiði eða annað.
Spurningin er bara: Hvenær og hvernig er best að gera það?
Áður en við förum í góðu ráðin er ágætt að benda á, að samkvæmt fyrrnefndri grein, eru það einmitt góðir stjórnendur og leiðtogar sem átta sig á því þegar starfsfólki líður illa og láta sig málin varða.
Þá er ágætt að benda á, að þótt yfirmaður láti sig málin varða og nálgist starfsmann sem er í vanlíðan, er ekki þar með sagt að viðkomandi sé að gefa væntingar um að hann/hún muni leysa málin.
Einfaldur leiðarvísir, samkvæmt grein, er sem hér segir:
Byrjaðu á því að meta aðstæður og líðan starfsmannsins, áður en þú býður fram aðstoð eða opnar fyrir samtal.
Hafðu síðan tvennt að leiðarljósi:
- Ef starfsmaðurinn er í það miklu uppnámi eða vanlíðan að viðkomandi getur ekki unnið, er gott að meta aðstæðurnar strax, átta sig á því hvaða tilfinningar eru ríkjandi hjá starfsmanni og bjóða síðan fram aðstoð.
- Ef starfsmaðurinn getur unnið þrátt fyrir vanlíðan, gerir stjórnandinn í raun það sama: Metur aðstæður og hvaða tilfinningar eða líðan eru ríkjandi hjá starfsmanni, en bíður með að bjóða fram aðstoð sína. Ef og þegar það móment er rétt, opnar stjórnandinn á samtal með því að spyrja viðkomandi hvernig honum/henni líði.