Skoðun

Hvers vegna getur ein greiðsla á ári frá TR verið góður kostur?

Sigurjón Skúlason skrifar

Sífellt fleiri lífeyrisþegar kjósa að nýta sér eina greiðslu á ári frá Tryggingastofnun (TR) til að koma í veg fyrir endurgreiðslu til TR í kjölfar árlegs uppgjörs, en ein greiðsla á ári er einmitt góður kostur fyrir lífeyrisþega með háar og breytilegar tekjur. Með slíkri greiðslu er greitt eftir rauntekjum samkvæmt skattframtali síðasta árs en ekki áætluðum tekjum sem oft reynist erfitt að vita um fyrir fram.

Hverjum hentar ein greiðsla á ári?

Þau sem eru að fá óverulegar mánaðarlegar greiðslur frá TR og treysta ekki alfarið á þær til að framfleyta sér ættu að íhuga að fá eina greiðslu á ári. Til dæmis má nefna að ef tekjur eru undir 50.000 krónum frá TR getur verið góður valkostur að fá eina greiðslu á ári. Til eru dæmi um að verið sé að greiða mjög lágar upphæðir mánaðarlega til einstaklinga, jafnvel undir 1.000 kr.

Sömuleiðis getur ein greiðsla á ári hentað fyrir þau sem eru með háar og sveiflukenndar tekjur á mánuði samhliða greiðslum frá TR svo sem fjármagnstekjur sem getur verið erfitt að áætla á milli mánaða.

Kostir við að fá eina greiðslu á ári

Með því að fá eina greiðslu á ári færðu það sem þér ber, hvorki of eða van. Greiðslan byggir á rauntekjum samkvæmt skattframtali síðastliðins árs, en ekki áætluðum tekjum.

Þú þarft ekki að uppfæra tekjuáætlunina þína innan ársins þegar og ef breytingar verða á tekjum þínum á milli mánaða og með því minnkar umsýsla þín vegna greiðslna frá TR.

Þegar þú færð eingöngu eina greiðslu á ári þarftu ekki að endurgreiða til TR.

Hvað þarftu að gera?

Þú þarft að sækja um að fá eina greiðslu á ári og er hægt að gera það hvenær sem er ársins á Mínum síðum TR. Ef árið er hálfnað eins og nú er, þá munu greiðslur falla niður frá næstu mánaðamótum og í júní á næsta ári mun liggja fyrir niðurstaða um réttindi þessa árs. Með þessu móti stuðlar þú að réttum greiðslum til þín í samræmi við réttindi til lengri tíma.

Í störfum okkar hjá TR leggjum við áherslu á að hver og einn fái greitt í samræmi við réttindi og höfum við séð að ein greiðsla á ári kemur vel út fyrir ákveðinn hóp viðskiptavina okkar. Við viljum því vekja sérstaka athygli á þessari greiðsluleið.

Höfundur er verkefnastjóri uppgjörsmála.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×