„Mér hefur hlotnast sá heiður síðastliðin þrjú ár að vera yngsti kjörni alþingismaðurinn. Það er titill sem tíminn tekur af manni, en við sjáum það út um allan heim að ungu fólki er ekki treyst til þess að kjósa, til að bjóða sig fram eða til að gegna stjórnunarstöðum. Sjálfri þykir mér það gríðarlega mikilvægt að ungt fólk komi að öllum ákvarðanatökum. Það er nauðsynlegt að hópurinn á bakvið stórar ákvarðanir sýni ákveðna breidd samfélagsins þar sem mismunandi sjónarmið liggja að baki og framtíðarsýnin er til staðar á sama tíma og við höfum reynslu fortíðarinnar,“ sagði Lilja Rannveig í almennum stjórnmálaumræðum eða eldhúsdagsumræðum á þingi í kvöld.
Hún segir áríðandi að taka vel utan um ungt fólk.
„Því við erum að sjá það að það eru allt of margir ungir einstaklingar undir þrítugu, sem eru ekki í vinnu eða námi. Hópurinn frá 18-30 ára er á viðkvæmu stigi í sínu lífi og við eigum að koma með fleiri aðgerðir sem koma sérstaklega til móts við þann hóp, eins og hlutdeildarlánin eru til að hjálpa ungu fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn.“
Hún sagði mikilvægt að skoða hópinn og stöðu hans heildstætt og best væri ef mynduð væri sérstök ungmennastefna með aðgerðaáætlun.
„Að mínu mati eru stefnur ríkisstjórna eitt besta verkfærið til framtíðarstefnumótunar því að þær standa þó að ný ríkisstjórn komi að borðinu.Í þeim felst framtíðarsýn þingsins í mismunandi málaflokkum og nú á þessu kjörtímabili hafa verið lagðar fram og samþykktar mikilvægar stefnur og aðgerðaáætlanir þeim tengdar...Þetta gefur tóninn er varðar stöðu og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í ótalmörgum málaflokkum.“