Barbora var í ferð um Reynisfjöru með stúdentahóp frá Tékklandi á aldrinum þrettán til fimmtán ára þegar atvikið átti sér stað en hún segist hafa orðið skelfd þegar að hún sá að maðurinn gerði sig líklegan til sjósunds. Hún segir að hún hafi ekki náð tali af manninum enda einbeitti hún sér að því að halda nægilegri fjarlægð frá flóðarmálinu og fylgjast með hópnum sem hún bar ábyrgð á.
Myndin vakti óhug á Facebook
Barbora tekur fram að hún hafi aldrei áður séð neinn baða sig í fjörunni. Óvíst er hvort að maðurinn hafi verið erlendur ferðamaður eða Íslendingur.
Eins og frægt er er Reynisfjara einn hættulegasti ferðamannastaður landsins en fimm banaslys hafa orðið í Reynisfjöru síðustu sjö ár. Svo virðist sem að ferðamenn geri sér oft ekki grein fyrir sterkum hafstraumum á svæðinu þrátt fyrir fjölmörg skilti þess efnis.
Barbora deildi myndum af manninum að baða sig í sjónum á Facebook-hópnum „Stupid Things People Do in Iceland“ eða „Heimskulegir hlutir sem fólk gerir á Íslandi“ en færslan vakti mikla athygli þar. Miðað við ummæli undir myndinni er fólk forviða að maðurinn hafi vogað sér út í sjóinn og vekja myndirnar upp óhug hjá meðlimum hópsins.