Maríu Helgu rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Ekki ein einasta setning sem þar var þýdd stóðst lágmarks skilyrði íslenskunnar. Svo virðist sem Icelandair sé vargur í véum þegar tungmál Íslendinga er annars vegar.
María Helga segist hafa starfað við þýðingar milli íslensku og ensku í tvo áratugi og sé því ágætlega vön að finna manngerðar þýðingarvillur og vélrænar. En sú „íslenska“ sem við blasti var augljóslega ekki runninn undan rifjum manneskju. Og heldur ekki afurð hefbundinna þýðingarvélar.
„Google Translate er oft klaufi en leggur það almennt ekki í vana sinn að búa til orð eins og „Fimmtítalshúsfreyju“ eða „leðursteikjuskeiði“. Í það dugar ekkert minna en gervigreind, sá sískapandi bullukollur. Sú gervigreind sem hér hefur verið notuð hefur ekki einu sinni verið þjálfuð sæmilega á íslensku gagnasafni, eins og sjá má á því hvernig hún flakkar á milli rithátta sem minna á íslensku og blandinavísku („eventýralega“). Garmurinn er enda bara að geta í eyðurnar út frá líkindum,“ segir María Helga sem ritar grein á Vísi um þessa reynslu sína.
Hún segir þetta Icelandair til háborinnar skammar. Og það sem verra er, félagið virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að færa þetta til betri vegar.

„Við hjónin urðum fyrst vör við þetta í flugi þann 9. maí síðastliðinn og nefndum málið strax við flugfreyju, sem ég bað um að koma ábendingunni áleiðis hjá flugfélaginu. Betri helmingurinn fyllti út þjónustukönnun um 10 dögum síðar og minntist þar á þetta aftur. Ég hef fulla trú á að fleiri hafi sett út á þetta við flugfélagið, en í dag, þremur vikum eftir að við bentum fyrst á þetta, hefur ekkert breyst miðað við myndir sem mér bárust frá öðrum farþega.“
María Helga skorar á öll þau sem umhugað er um málrækt að vera vakandi fyrir þeirri raunverulegu ógn sem steðjar að málinu. „Fátt er hættulegra fyrir framtíð íslenskunnar en að flaggskip á íslenskum fyrirtækjamarkaði skuli sjá hag sinn í því að taka upp vélbullað íslenskulíki í sparnaðarskyni.“