Nú eru aðeins eru fjörutíu og sex klukkustundir þar til kjörstaðir verða opnaðir og Íslendingar ganga að kjörborðinu til að kjósa sjöunda forseta lýðveldisins. Miðað við þær tuttugu og tvær kannanir sem nú hafa verið birtar eru allar líkur á að næsti forseti verði kona.
Þetta er staðfest í nýjustu könnun Maskínu fyrir fréttastofuna. Þar mælast Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir hnífjafnar með 24,1 prósent. Það er marktækur munur á þeim tveimur annars vegar og Höllu Hrund Logadóttur hins vegar sem mælist með 18,4 prósent, 5,7 prósentustigum minna fylgi en Katrín og Halla Tómasdóttir.

Baldur Þórhallsson mælist með 15,4 prósent, Jón Gnarr með 9,9 og Arnar Þór Jónsson með slétt fimm prósent. Marktækur munur er á þeim öllum. Hinir sex frambjóðendurnir mælast samanlagt með 3,2 prósent.
Ólafur Þ. Harðarson prófessor emiritus í stjórnmálafræði sem leitt hefur kosningarannsóknir á Íslandi í áratugi sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að forsetakosningarnar nú væru þær mest spennandi frá árinu 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir náði fyrst kvenna naumlega kjöri.
Undanfarnar vikur hefðu verið miklar hreyfingar á fylgi frá einni könnun til annarar. Staðan geti breyst allt fram á kjördag því rannsóknir sýni að vaxandi fjöldi kjósenda ákveði sig á síðustu stundu, eftir að hafa velt fyrir sér kannski nokkrum frambjóðendum.
„Í forsetakosningunum 2016 sögðust 25 prósent kjósenda hafa ákveðið sig á kjördag eða rétt fyrir kjördag. Í síðustu alþingiskosningum sagðist helmingur kjósenda hafa ákveðið sig í síðustu vikunni. Tuttugu og fimm prósent ákváðu sig á sjálfan kjördaginn," segir Ólafur Þ. Harðarson.
Í könnunum væri fólk einfaldlega að segja hvaða frambjóðanda það væri líklegast til að kjósa á þeirri stundu. Það verður því spennandi að sjá aðrar kannanir sem birtar verða í dag og á morgun.
Könnunin fór fram dagana 27. til 30. maí 2024 og voru svarendur 2.985 talsins. Af þeim sem tóku afstöðu vissu 4,9 prósent ekki hvern þau myndu kjósa og 0,9 prósent vildu ekki svara spurningunni. Þá sögðust 0,4 prósent ekki ætla að kjósa og 0,7 prósent sögðust ætla að skila auðu.