Erlent

700 talin af vegna aurskriðu í Papúa Nýju-Gíneu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Íbúar og viðbragðsaðilar hjálpast að við að grafa fórnarlömb upp úr skriðunni.
Íbúar og viðbragðsaðilar hjálpast að við að grafa fórnarlömb upp úr skriðunni. AP/Mohamud Omer

Um 700 manns eru talin af vegna stórrar aurskriðu sem féll í Papúu Nýju-Gíneu í gær. Alþjóðlega fólksflutningastofnunin (IOM) hafði fyrst gefið út að hundrað manns eða fleiri hefðu orðið undir en hafa nú hækkað viðmið sitt umtalsvert.

Reuters greinir frá.

Aurskriðan féll snemma morguns á laugardag og grófust margir undir henni á meðan þau sváfu. Serhan Aktoprak, talsmaður Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar á svæðinu, segir tölurnar miða við útreikninga embættismanna í Enga-héraði þar sem viðbragðsstarf fer nú fram. Ekki er búist við því að margir komi til með að finnast lifandi.

Heilu þorpin grófust með öllu þegar skriðan féll.AP/Kafuri Yaro

Fimm hafa fundist látnir ásamt fótleggi hins sjötta. Fjöldi húsa hafa grafist undir aurskriðunni og eyðilagst en vegna hræringa í jörðinni hefur einnig þurft að rýma 250 hús til viðbótar. Þá eru fleiri en tólf hundruð manns á vergangi.

„Jörðin er enn á hreyfingu, grjóthrun er algengt og sprungur myndast í undirlaginu vegna stöðugs aukins þrýstings auk þess sem grunnvatn rennur undir þessu öllu þannig svæðið er mjög hættulegt fyrir alla,“ segir Serhan Aktoprak um aðstæður við björgunarstarfið.

Viðbragðsaðilar hafa gefið upp alla von á því að fólk finnist lifandi undir skriðunni sem er á mörgum stöðum á bilinu sex til átta metra djúp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×