Valur varð Evrópubikarmeistari í gær, fyrst íslenskra félaga, eftir hádramatískan sigur í vítakeppni gegn Olympiacos.
Fyrirliðarnir tveir lyftu bikarnum á loft við gríðarlegan fögnuð enda ótrúlegt afrek sem á sér enga hliðstæðu í íslenskum íþróttum.

„Þetta er bara eins og Disney-ævintýri eða eitthvað. Endum þetta þannig“ sagði Vignir Stefánsson svo í samtali við RÚV. Hann er alinn upp í Vestmannaeyjum og steig sín fyrstu skref með ÍBV en hefur verið leikmaður Vals síðan 2012.
„Ég verð í Valstreyjunni örugglega bara að eilífu, ÍBV búningnum undir en ég verð í Vals alltaf. En ég veit ekki hvort ég fari í annan leik, segjum þetta bara gott.“
Alexander Örn er uppalinn hjá Val og hefur leikið allan sinn feril hjá félaginu. Gangandi goðsögn sem hefur nú ákveðið að leggja skóna á hilluna, allavega í bili.
„Ég ætla að segja þetta gott í bili og ég er ákaflega stoltur af því sem ég hef afrekað hingað til með liðinu og bara ferlinum heilt yfir og gæti ekki verið sáttari með að setja punktinn niður eftir þennan leik“ sagði Alexander, einnig í samtali við RÚV.
Það lék enginn vafi á því að þetta væri hápunktur á hans ferli og Alexander gengur stoltur frá félaginu.
„Já, það er ekki hægt að segja annað. Þetta verður aldrei toppað. Aldrei.“
