Skipstjóri erlends flutningaskips hefur verið handtekinn, grunaður um aðild að sjóslysi við Garðskaga í nótt. Tveir skipverjar eru í haldi að auki. Maður á áttræðisaldri var hætt kominn í slysinu en vinur hans bjargaði honum á ögurstundu. Við hittum bjargvættinn í kvöldfréttum þar sem hann var nýkominn í land eftir þrekraunina.
Þá förum við í heimsókn til Ölfuss, þar sem boðað hefur verið til sérstaks fundar í bæjarstjórn vegna bréfs sem forstjóri landeldisins First Water sendi bæjarstjórn í fyrradag. Í bréfinu lýsir hann sig andsnúinn því að mölunarverksmiðja rísi í næsta nágrenni við matvælaframleiðslu.
Við verðum einnig í beinni útsendingu frá Alþingi, þar sem tekist hefur verið á um umdeildar breytingar á útlendingafrumvarpi, og sýnum frá afhendingu mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar í Höfða.
Í sportinu verður úrslitaeinvígi í körfubolta kvenna í eldlínunni. Strax að fréttum loknum hefjast svo kappræður efstu sex frambjóðenda undir stjórn Heimis Más Péturssonar. Allt í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2.