Í beinni útsendingu á Netflix í gær var Tom Brady grillaður af vinum sínum og grínistum. Grillun kallast „roast“ á ensku og er tegund gríns þar sem einn einstaklingur er fenginn til að vera í sviðsljósinu og nokkrir koma og gera grín að honum og öðrum grillurum.
Grillstjórinn var grínistinn Kevin Hart og meðal annarra sem mættu á svið voru fyrrverandi liðsfélagi hans Rob Gronkowski, uppistandararnir Jeff Ross og Andrew Schulz og Kim Kardashian.
Þegar Kardashian mætti á sviðið þakkaði hún Hart fyrir að kynna sig inn og byrjaði á því að segja „Ég veit að margir gera grín að hæð þinni,“ en Hart er 157 sentimetrar að hæð. Fyrsti brandarinn sló ekki í gegn og baulað var á hana. Kardashian glotti bara, hélt áfram með grínið sitt og lét baulið ekki á sig fá.