Aron meiddist á baugfingri á hægri hendi. Ekki er fyllilega ljóst hvað amar að fingrinum en Aron fer í myndatöku vegna meiðslanna í dag.
ÍBV vann leik gærdagsins eftir vítakastkeppni og jafnaði einvígið þannig 2-2. Niðurstaðan mikil vonbrigði fyrir FH-inga og ljóst að oddaleikur er fram undan á sunnudag. Aron segist vonast til að fá jákvæða niðurstöðu úr myndatökunni.
„Ég hef verið betri. Ég fékk eitthvað í puttann og er á leið í myndatöku og svoleiðis í dag. Verkurinn það mikill að ég gat ekki haldið á boltanum eða kastað,“ segir Aron í samtali við Vísi og bætir við:
„Þessi tjékk verða í dag og maður bara vonar að þetta verði nógu gott til að maður verði klár á sunnudaginn.“