Í fréttatilkynningu frá Sigríði Hrund segir að hún dragi framboðið til baka með þakklæti og auðmýkt. Öllum meðmælum hafi nú verið eytt, rafrænum sem og á pappír. Það gerir það að verkum að fólk sem hafði mælt með Sigríði Hrund getur nú mælt með öðrum frambjóðanda. Skrifi meðmælendur undir hjá tveimur fær hvorugur þeirra að njóta undirskriftarinnar.
„Mig langar að þakka meðmælendum mínum fyrir traustið, hvatninguna og tækifærið sem þau veittu mér. Enn fremur langar mig að taka fram að á ferðum mínum um landið hefur verið vel á móti mér tekið í hvívetna og ég verið aufúsugestur hvar sem mig hefur borið að garði. Það segir margt um okkar einstöku þjóð.“
Áhugaverðar vikur fram undan
Þá segir að hún sendi meðframbjóðendum hennar hvatningar-, þakklætis- og stuðningskveðjur á þeirra vegferð. Það sé einstakt að búa í landi sem leyfir virkt lýðræði og tjáningarfrelsi. Að geta staðið upp og stigið fram séu mannréttindi sem við eigum að vernda með því að iðka – átakalaust.
„Framundan eru áhugaverðar vikur þar sem þjóðin fær að kynnast fjölbreyttum frambjóðendum ítarlega. Það er einlæg ósk mín að við samgleðjumst og tökum fagnandi á móti hugrökku fólki með mildi og styrk að leiðarljósi.“
Nú eru meðframbjóðendur hennar að undirbúa sig til þess að skila meðmælaundirskriftalistum til landskjörstjórnar í Hörpu á milli klukkan 10 og 12. Vísir verður í beinni útsendingu frá Hörpu.