Fölnun hefur orðið í kóralrifjum að minnsta kosti 54 landa og svæða frá því í febrúar í fyrra samkvæmt upplýsingum kóralrifjamiðstöðvar NOAA. Kórallar eru afar viðkvæmir fyrir sveiflum í sjávarhita. Í hitabylgjum losa kórallarnir sig við þörunga sem lifa í sambýli við þá og gefa þeim lit. Án þörunganna geta kórallarnir þó ekki lifað. Fölnaðir kórallar geta tekið við sér aftur ef sjórinn kólnar aftur.
Til þess að fölnunaratburður teljist hnattrænn þarf fölnun að eiga sér stað í öllum þremur djúpsjávarflæmum jarðar: Atlantshafi, Kyrrahafi og Indlandshafi á 365 daga tímabili, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Veðurfyrirbrigðið El niño magnaði upp þá hlýnun sem á sér stað vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum í fyrra. Áratugagömul hitamet í hafinu voru þá slegin rækilega. Síðustu þrír hnattrænu fölnunaratburðirnir áttu sér einnig stað á El niño-tímabilum: 1998, 2010 og 2014-17.

Sérfræðingar NOAA óttast að fölnunaratburðurinn nú kunni að reynast sá versti til þessi. Aldrei hafa þannig fleiri stök kóralrif sem mynda Kóralrifið mikla undan ströndum Ástralíu orðið fyrir hitaálagi en á undanförnum mánuðum. Þar hefur hitinn í sjónum verið um 2,5°C yfir meðaltali.
Óljóst er hversu vel kóralrif jarðar, sem eru gríðarlega mikilvægt vistkerfi hafsins, geta staðið af sér endurteknar hitabylgjur í hlýnandi heimi. Spáð hefur verið að allt frá sjötíu til níutíu prósent þeirra gætu glatast þegar hnattræn hlýnun nær 1,5°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Aðeins vantar nú nokkrar kommur upp á manngerð hlýnun nái slíkum hæðum og útlit er fyrir að hún verði umtalsvert meiri ef ekki verður meira að gert.
„Það sem er að gerast er nýtt fyrir okkur og vísindunum. Við getum ekki ennþá spáð fyrir um hvernig kóröllum undir miklu hitaálagi reiðir af,“ segir Lorenzo Álvarez-Filip, sjávarvistfræðingur frá Sjálfstjórnarháskóla Mexíkó (UNAM).