Þetta segir Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur hjá veðurstofunni um stöðuna á hraunflæði frá eldgosinu við Sunhnúkagíga. Eldgosið sjálft hefur verið stöðugt og litla breytingu er að sjá á gígunum.
„Hraunið flæðir áfram meðfram varnargörðunum norðan og austan Grindavíkur. Það hraun sem er að renna meðfram varnargörðunum norðan Grindavíkur heldur áfram að fylla upp í Melhólsnámu,“ segir Einar Bessi.
Þá hefur gossprungan haldist stöðug frá þriðja degi goss. Sama má segja um kraftinn í gosinu. Varðandi gasmengun segir Einar Bessi að með norðanátt, líkt og í dag, getur gasmengun borist til Grindavíkur. Í kvöld muni hins vegar áttin snúast til suðausturs og gasmengun þá borist yfir Svartsengi og Reykjanesbæ.