Skagamenn báru sigurorð af Val þegar liðin áttust við í undanúrslitum Lengjubikars karla í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Það þurfti vítaspyrnukeppni til þess að útkljá leikinn.
Staðan var 1-1 þegar mínúturnar 90 og uppbótartíminn var liðinn og úrslitin réðust af þeim sökum á vítapunktinum.
Albert Hafsteinsson kom Skagamönnum yfir eftir tæplega stundarfjórðungs leik en hann skoraði þá með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Albert fékk nægan tíma til þess að athafna sig inni í vítateig Valsmanna og kláraði færið vel.
Það var svo Tryggvi Hrafn Haraldsson sem jafnaði metin fyrir Val þegar hann rak smiðshöggið á góða skyndisókn Valsliðsins. Tryggvi Hrafn skoraði með föstu skoti sem Árni Marínó Einarsson réð ekki við.
Ekkert var skorað í seinni hálfleik og staðan þar af leiðandi 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Farið var beint í vítaspyrnukeppni og þar var það Skagaliðið sem var sterkara á svellinu.
Árni Marínó varði vítaspyrnu Adams Ægis Pálssonar í fyrstu umferð vítaspyrnukeppninnar en vítin þar á eftir rötuðu rétta leið í markið.



Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Val í kvöld en hann kom inná þegar þegar rúmlega 20 mínútur voru eftir af leiknum. Gylfi Þór skoraði úr sinni vítaspyrnu en það dugði ekki til fyrir Valsmenn.



Jón Þór: Sáttur við holninguna á liðinu
„Mér fannst við byrja þennan leik vel og létum boltann ganga vel á milli okkar. Við uppskárum gott mark eftir flotta sókn. Eftir markið sem við skoruðum þá misstum við aðeins kjarkinn í að halda í boltann og gáfum færi á okkur,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, að leik loknum.
„Við komum hins vegar sterkir inn í seinni hálfleikinn og áttum stangarskot og fleiri færi. Þegar líða tók á leikinn dró svo aðeins af okkur enda langt síðan við spiluðum og Valsmenn náðu að þrýsta okkur svolítið aftarlega. Við héldum hins vegar út og kláruðum leikinn í vító,“ sagði Jón Þór enn fremur.
„Ég var ánægður með holninguna á liðinu heilt yfir og svo erum við nokkra leikmenn utan leikmannahóps vegna meiðsla í dag sem koma inn á næstu vikum. Það er gott að fá auka keppnisleik og eiga sjéns á að vinna mótið,“ sagði Skagamaðurinn um framhaldið.
Arnar Grétarsson: Boltinn gekk full hægt á köflum
„Framan af leik gekk boltinn allt of hægt og við vorum of mikið að spila til hliðar og til baka. Við löguðum það hins vegar þegar líða tók á leikinn og ég er sáttur við það. Við fórum vel yfir hlutina í hálfleik og fundum millisvæðin betur í þeim seinni og komumst meira bakvið þá,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals.
„Það er erfitt að brjóta á bak aftur Skagaliðið sem verst í 5-4-1 og sækir svo hratt á þig þegar þeir vinna boltann. Við sköpum fullt af færum fyrir utan markið sem við skorum og hefðum átt að klára leikinn í venjulegum leiktíma. Það gerðist aftur á móti ekki og þegar út í vító kemur getur allt gerst,“ sagði Arnar um þróun leiksins.
Aðspurður um hvernig honum hefði fundist innkoma Gylfa Þórs sagði Arnar: „Gylfi Þór kom bara vel inn í þetta hjá okkur og ég er bara ánægður heilt yfir með braginn á liðinu síðasta hálftímann í leiknumm. Boltinn gekk hratt og við áttum margar góðar sóknir. Það er ánægjulegt að það kom ekkert bakslag í meiðslin hjá Gylfa og nú höldum við áfram að byggja hann upp líkamlega fram að móti.“

Af hverju vann ÍA?
Heilsteypt flott frammistaða Skagaliðsins þar sem liðið sýndi á sér tvenns konar hliðar með því annars vegar að halda vel í boltann og byggja upp góðar sóknir frá öftustu línu og hins vegar að verjast vel í lágpressu og sækja hratt í kjölfarið skilaði liðinu í vítapsyrnukeppni. Þar voru það öruggar vítaspyrnur og Árni Marínó sem skilaði liðinu yfir línuna.
Hverjir sköruðu fram úr?
Guðfinnur Þór Leósson átti flottan leik inni á miðsvæðinu hjá Skagamönnum en hann spilaði líkt og þindarlaus maður. Var öflugur bæði í vörn og sókn og skilaði sér inn í boxið hjá Valsmönnum þegar það átti við. Guðfinnur Þór var óheppinn að skora ekki í leiknum en skot hans fór í stöngina.
Þá var Árni Marínó góður bæði í venjulegum leiktíma og vann fyrir kaupinu sínu í vítaspyrnukeppninni. Oliver Stefánsson var eins og klettur í vörn Skagamanna og Albert Hafsteinsson var skeinuhættur á vinstri kantinum.
Hjá Valsmönnum var Aron Jóhannsonn iðinn við að skapa færi og koma sér sjálfur í þau. Lúkas Logi Heimissson átti góða spretti og Jónatan Ingi Jónsson minnti á sig með því að koma sér í góðar stöður í seinni hálfleik.


Hvað gekk illa?
Valsmönnum gekk illa að klára sóknirnar sínar í þessum leik en það vantaði oft og tíðum síðustu betri gæði í síðustu sendinguna eða betri slútt til þess að gera út um leikinn í venjulegum leiktíma. Þá var varnarleikurinn í marki Skagans ekki til útflutnings.
Hvað gerist næst?
Skagamenn næta Blikum í úrslitaleik Lengjubikarsins miðvikudaginn 27, mars. Næsti mótsleikur hjá Val er meistara meistaranna á móti Víkingi sem fram fer mánudaginn 1. apríl.
