Tilkynnt var um sölu bankans á tryggingafélaginu TM til Landsbankans í gær. Bankinn hefur verið með TM í söluferli frá 17. nóvember.
„Eftir að hafa metið tilboðin með ráðgjöfum sínum hefur stjórn Kviku ákveðið að taka tilboði Landsbankans hf. með það að markmiði að ljúka endanlegri áreiðanleikakönnun og undirrita kaupsamning milli bankanna um kaup og sölu 100% hlutafjár TM eins fljótt og auðið er, með hefðbundnum fyrirvörum, s.s. samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins,“ sagði í tilkynningu Kviku banka í gær.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra hefur lýst óánægju sinni með fyrirhuguð kaup Landsbankans. Hún segir að ríkisfyrirtæki eigi ekki að kaupa tryggingafélög og að viðskiptin verði ekki samþykkt af henni, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða.