„Þetta virðist nú vera kraftmesta gosið fram að þessu. Sprungan er svona þrír og hálfur kílómeter að lengd, mjög öflug. Hún nær frá norðanverðu Hagafelli og norður á móts við Stóra Skógfell. Hún er öll mjög virk,“ segir Magnús í samtali við Rúv.
Hann segir að samkvæmt útreikningum sínum sé ekki langt í að hraunið nái að Grindavíkurvegi annars vegar og hins vegar að varnargörðum við Grindavík.
„Nú er spurning hversu hratt dregur úr þessu. Þetta virðist vera kraftmesta gosið fram að þessu, ekki stærðargráðu meira, en heldur öflugra en það sem hefur komið fram að þessu,“ segir Magnús Tumi sem segir ólíklegt af fenginni reynslu að ekki fari að draga úr rennslinu.